Þriðjudagur 26. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 57. tbl. 17. árg.

Bankahrunið er mörgum mjög kært umræðuefni. Það er allsherjarsvar við ýmsum spurningum. Allt frá persónulegum vandræðum til pólitískra álitaefna. „Hér varð auðvitað…“ 

Sjá mátti sýnishorn af þessu í Kastljósinu þar sem Björn Valur Gíslason nýr varaformaður vinstri grænna greip til alsvarsins að minnsta kosti einu sinni þegar hann rak í vörðurnar í stuttum umræðuþætti með Hönnu Birnu Krjstánsdóttur nýjum varaformanni Sjálfstæðisflokksins.

Í morgun sagði Morgunblaðið frá þessum tíðindum frá hagstofunni:

Árið 2011 var ungbarnadauði á Íslandi 0,9 af 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn lágur og hér árið 2011. Næstir Íslandi komu Svíar en þar var ungbarnadauði 2,1 af 1.000 lifandi fæddum. Annars staðar á Norðurlöndum var ungbarnadauði á bilinu 2,4-3,5. Heildarmeðaltal Evrópusambandsríkja ásamt EES-þjóðum var 3,9 fyrir árið 2011. Í Evrópu var ungbarnadauði tíðastur í Kósóvó eða 13,1 af hverjum 1,000 lifandi fæddum.

Er hægt að nota orðið hrun um þjóðfélag sem heldur þessari eftirsóknarverðu stöðu, að hvergi látist færri börn á fyrsta aldursári?

Bankahrunið var afskaplega merkilegt mál og engin ástæða til að stinga hausnum í sandinn hvað afleiðingar þess varðar. En nokkrum árum síðar eru Íslendingar sem fyrr meðal þeirra sem njóta mestra lífsgæða.

Segir það ekki ákveðna sögu um hvert þjóðin var komin í byrjun 21. aldar að jafnvel „hrunið“ og stjórnarhættirnir undanfarin ár hafa ekki dugað til að hnika henni að ráði í efnum sem þessum?