Mánudagur 25. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 56. tbl. 17. árg.

Sjálfstæðisflokkurinn hélt landsfund sinn um helgina og ítrekaði þar margyfirlýsta stefnu sína í Evrópumálum: Hann vill ekki að Ísland renni inn í Evrópusambandið og vill því ekki að landið sæki um aðild að því. Í því felst að sjálfsögðu að sú aðildarumsókn, sem vinstristjórnin þröngvaði í gegnum alþingi, verður felld úr gildi. Þetta er auðvitað mjög einfalt. 

Og eins og venjulega þá bregst Ríkisútvarpið við með sömu kenningunum. Sjálfstæðisflokkurinn er að „einangra sig“. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að „loka á Samfylkinguna“. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að færa öðrum flokkum öll trompin í stjórnarmyndunarviðræðum.

Hvenær segja Ríkisútvarpið eða álitsgjafarnir að Samfylkingin einangri sig í Evrópumálum? Samfylkingin og Afleggjari hennar eru einu flokkarnir sem segjast vilja ganga í Evrópusambandið. En að mati fréttamanna og álitsgjafa þá eru það allir hinir sem eru einangraðir í málinu. Það eru allir hinir sem eru alltaf að mála sig út í horn með því að taka ekki upp stefnu einsmálsflokksins.

Ætli fréttamönnum, „sérfræðingum“ og álitgjöfum detti aldrei í hug að þeir sjálfir séu gjörsamlega blindaðir af eigin heimsmynd? Hvaða önnur skýring getur verið á því, að þeim finnst alltaf að allir séu einangraðir í Evrópumálum nema eini flokkurinn sem segist vilja ganga í Evrópusambandið og krefst þess að allir aðrir greiði því áhugamáli hans leið?