Vefþjóðviljinn 58. tbl. 17. árg.
Þrátt fyrir mikinn áhuga fjölmiðlamanna á Evrópusambandsmálum, þá virðist sem nokkuð hafi skort á fréttaflutning af þeim málum á nýafstöðnum landsfundi Samfylkingarinnar. Hverjir fengu þar að móta stefnuna, harðlínumenn eða frjálslyndir.
Þeim sem finnst þetta undarlegt umhugsunarefni hafa líklega ekki heyrt þær umræður sem haldið hefur verið úti af krafti allt frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þar er hamrað á því að harðlínumenn hafi haft sigur. Nú sé stefna flokksins mjög hörð og öfgakennd. Sjálfstæðisflokkurinn hafi lokað á aðra – sem þýðir á mæltu máli að hann hafi ekki tekið upp stefnu Samfylkingarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafa bæði skýra stefnu í Evrópusambandsmálum. Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland haldi fullveldi sínu og standi utan Evrópusambandsins. Samfylkingin vill hvorugt. Í samræmi við þetta vill Samfylkingin að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu en Sjálfstæðisflokkurinn vill það ekki.
Hvernig ætli standi á því að fjölmiðlamenn og álitsgjafar láta alltaf eins og þeir sem séu á annarri skoðuninni séu „harðlínumenn“, en hinir séu „frjálslyndir“? Ætli eigin skoðanir fjölmiðlamannanna hafi eitthvað með það að gera?
Hvernig ætli standi á því, að þeir sem ekki taka upp stefnu Samfylkingarinnar séu alltaf sagðir hafa málað sig út í horn? En Samfylkingin sem stendur ein í málinu, sé aldrei sögð vera einangruð? Ætli fordómar fjölmiðlamanna í garð flokkanna komi þar við sögu?
Samkvæmt könnunum er yfirgnæfandi meirihluti landsmanna andvígur því að ganga í Evrópusambandið. Við síðustu kosningar náði aðeins einn flokkur kjöri sem vill að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þeir flokkar, sem sögðu kjósendum að þeir væru á móti aðild að Evrópusambandinu, fengu yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
Engu að síður tókst þessum eina flokki með ofsa sínum að knýja fram samþykkt á Alþingi um að Ísland myndi sækja um aðild. Tillaga um að þjóðin fengi að greiða atkvæði um þá ákvörðun var felld. Engin fjölmiðlamaður kallar þetta harðlínuafstöðu. Enginn fjölmiðlamaður telur að þessi eini ofsafengni flokkur hafi málað sig út í horn. Nei, það eru bara þeir sem ekki taka upp afstöðu Evrópusambandsflokksins sem eru einangraðir. Ef slíkir flokkar dirfast að leyfa yfirgnæfandi meirihluta flokksmanna að ráða eigin stefnu í málinu, þá eru þeir kallaðir harðlínumenn.
Þeir einu sem eru einangraðir í eigin heimi og sjá þar ekkert nema eigin harðlínu, eru fjölmiðlamenn og álitsgjafar sem svona tala.