Laugardagur 16. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 47. tbl. 17. árg.

Nýlega voru rifjuð upp ótal afglöp Gylfa Magnússonar dósents í viðskiptafræðum í embætti viðskiptaráðherra. Við lestur á þeirri hrakfallasögu, sem Gylfi er raunar byrjaður að biðjast velvirðingar á, varð Vefþjóðviljanum hugsað til kröfu sem kom fram í blaðagrein á dögunum um að næsti fjármálaráðherra verði að vera „fagmaður“ og „vita eitthvað um fjármál.“  

„En plís, höfum samt fagmann í fjármálaráðuneytinu. Allavega næstu fjögur árin,“ skrifaði Pawel Bartoszek stærðfræðingur í Fréttablaðið 8. febrúar.  Pawel var einn hinna útvöldu þegar Hreyfingin og stjórnarflokkarnir skipuðu „stjórnlagaráð“ um árið. Það vafðist ekki fyrir honum að setjast í ráðið þótt ekki sé vitað til þess að hann Illugi Jökulsson eða aðrir stjórnlagaráðsliðar séu sérstakir „fagmenn“ þegar kemur að stjórnskipunarlögum.

Og jafn skelfileg og langlokan er, sem kom frá hinu ófaglega stjórnlagaráði, verður hún samt að teljast hátíð hjá kosningakerfinu sem tveir stærðfræðingar, þar til kallaðir fagmenn, hönnuðu fyrir kosningu til stjórnlagaþings. Þeir voru taldir „vita eitthvað“ um kosningakerfi og vafalaust er það rétt þótt þeir hafi gleymt að gera ráð fyrir að kjósendur gætu fyrirhafnarlítið greitt atkvæði eða þeim möguleika að hægt væri að telja atkvæði með sæmilegri vissu. 

Öll sú fagmennska endaði með þeim einstæða atburði í sögu landsins að hæstiréttur úrskurðaði kosninguna ógilda.