Helgarsprokið 17. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 48. tbl. 17. árg.

Í gær bárust af því fréttir að Steingrímur J. Sigfússon myndi halda blaðamannafund um miðjan dag. Tilkynningin var sögð frá Vinstrigrænum en ekki úr Allsherjarráðuneytinu, svo efni fundarins var mjög líklega persónulegt eða flokkslegt en ekki á vegum ríkisins. 

Við slíkar aðstæður kemur yfirleitt tvennt til greina. Fundarboðandinn er að hætta, eða hann er að tilkynna nýtt framboð eftir mikla íhugun og samráð við fjölskyldu, vini og fólk úr ólíkum áttum.

Steingrímur J. gat varla verið að boða fundinn til að ítreka formannsframboð sitt í Vg, svo við blasti að hann væri að hætta. En svo kom á daginn að hann er bara að hætta sumu, og spurning hversu miklu hann hættir í raun. Steingrímur J. Sigfússon ætlar að hætta að gegna formannsembætti vinstrigrænna en hann ætlar að sitja áfram á þingi. Hann segist vera „hvergi nærri hættur“.

Enginn virðist efast um að Katrín Jakobsdóttir varaformaður verði klöppuð upp í formannsembættið á landsfundi. Steingrímur J. var varla farinn af blaðamannafundinum þegar byrjað var að birta í fjölmiðlum áskoranir frá flokksfundum um að hún tæki við. Strax daginn eftir lýsti hún yfir framboði. Svandís Svavarsdóttir sagði strax að hún ætlaði ekki sjálf í framboð og setti ekki einu sinni á svið áskoranir og umhugsun. 

Ef þetta gengur nú allt eftir og Katrín Jakobsdóttir verður kjörinn formaður eftir viku en Steingrímur J. Sigfússon situr áfram sem ráðherra og verður endurkjörinn þingmaður í vor, hvað ætli þá hafi breyst hjá vinstrigrænum?

Verður Katrín Jakobsdóttir raunverulegur leiðtogi flokksins? Mun Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður sitja á þingflokksfundum og bíða þar spenntur eftir ákvörðunum nýs leiðtoga?

Já, það verður þannig. Og Dimitri Medvedev hafði líka öll völd í forsætisráðherratíð Pútíns

Það var dæmigert fyrir ósanngirnina í málflutningi vinstrigrænna og gagnrýnisleysi fréttamanna á hana, að Steingrímur J. Sigfússon sagði í gær að hann ætlaði sko alls ekki að verða neinn aftursætisbílstjóri. Aðrir sem hefðu hætt sem flokksformenn hefðu gert það, en ekki hann. Við þessu sögðu fréttamenn ekki neitt.

Þegar aðrir hafa hætt sjálfviljugir sem flokksformenn, þá hafa þeir hætt. Davíð Oddsson hætti á þingi. Guðni Ágústsson hætti á þingi. Halldór Ásgrímsson hætti á þingi. Aðeins einn formaður sem hættir án formannskjörs ætlar að sitja áfram á þingi og segist vera „hvergi nærri hættur“. Og það er einmitt sá eini sem hælir sjálfum sér fyrir að vera enginn aftursætisbílstjóri, ólíkt öðrum sem hætti formennsku. Hann sé svo hreinn og beinn að hann bara hættir þegar hann hættir. 

Ef gert er ráð fyrir því að Katrín Jakobsdóttir taki við formennsku vinstrigrænna eftir viku, hvað hefur þá breyst? Katrín Jakobsdóttir hefur fylgt Steingrími J. Sigfússyni fullkomlega frá því hún kom á þing. Hvenær hefur hún greitt atkvæði öðru vísi en hann, í stóru eða smáu máli? Hún hefur aldrei borið hönd fyrir höfuð þeirra flokksmanna sem forystan hefur átt í útistöðum við, eins og Ögmundur Jónasson hefur þó stundum gert. Hún lýsir því þvert á móti opinberlega hversu sár hún sé yfir gagnrýni almennra flokksmanna á forystuna. Hún hefur aldrei látið í ljós að hún efist um nokkuð sem Steingrímur J. Sigfússon hefur sagt eða gert.

Það er ekkert sem bendir til þess að neitt breytist efnislega hjá vinstrigrænum við það að Katrín og Steingrímur skipti um stól á þingflokksfundum. Þeir sem ekki ætluðu að kjósa vinstrigræna undir formennsku Steingríms munu varla skipta um skoðun við formennsku Katrínar en þingmennsku Steingríms. 

Ef marka má skoðanakannanir mun fimmti hver þingmaður vinstrigrænna eða svo eftir næstu kosningar vera Steingrímur J. Sigfússon. Hann er því hvergi nærri hættur.

En brotthvarf Steingríms J. Sigfússonar úr formannsstóli vinstrigrænna, tveimur mánuðum fyrir kosningar, segir mikla sögu um þá stöðu sem ríkisstjórnin er komin í. Og þar getur ríkisstjórnin sjálfri sér um kennt.

Stjórnarherrarnir og fréttamenn þeirra tala mikið um að ríkisstjórnin hafi þurft að glíma við gríðarstórt verkefni sem ekki hafi verið til vinsælda fallið. Það er bæði rétt og rangt. En ríkisstjórnin gerði svo ótalmargt annað en að sinna ríkisfjármálum og efnahagslífinu. Stjórnarflokkarnir fengu mikinn meðbyr í kosningunum. Fólk hefði alveg veitt þeim svigrúm til að taka óvinsælar ákvarðanir í efnahagsmálum. En stjórnarflokkarnir gerðu svo margt annað en það. Þeir létu landið til dæmis sækja um aðild að Evrópusambandinu, en slík ákvörðun er augljóslega til þess fallin að kljúfa þjóðina. Þeir efna til ótrúlegrar aðfarar að stjórnarskrá landsins og eyða þar meira en milljarði af opinberu fé, í algerum óþarfa. Hvorugt af þessu tengist bankahruninu á nokkurn hátt. Þeir leggja mikið á sig til að koma því þannig fyrir skuldir einkabanka við erlenda viðskiptavini lendi á íslenskum skattgreiðendum. Þeir urðu trylltir af reiði þegar efnt var til atkvæðagreiðslu landsmanna um þær fyrirætlanir. Þeir leituðu að frambjóðanda til að fella forseta Íslands, kunnan vinstrimann, í hefndarskyni fyrir þátt hans í málinu. 

Óvinsældir ríkisstjórnarinnar eru ekki vegna óvinsælla en nauðsynlegra verka. Þær eru vegna óvinsælla og óþarfra verka.