Vefþjóðviljinn 46. tbl. 17. árg.
Í gær flutti Össur Skarphéðinsson „skýrslu utanríkisráðherra“ um utanríkismál á þingi og sagði: „Bara svo ég tali umbúðalaust: ESB er orðið hundleitt á EES, finnst mér stundum. Það er orðið hundleitt á tvíhliða samningunum við Sviss.”
Já, Evrópusambandið er orðið „hundleitt“ á því að virða þann samning sem það hefur sjálft gert við sjálfstæð fullvalda ríki eins og Ísland, Noreg og Sviss. Og það á ekki aðeins við um EES-samninginn við Ísland og Noreg, samning um sérstakt efnahagssvæði, heldur líka einfaldan milliríkjasamning sem það gerði við Sviss, það mikilvæga ríki í fjármálum og viðskiptum heimsins.
En Evrópusambandið mun auðvitað virða „sérstöðu Íslands“ til frambúðar, og veita Íslendingum „varanlegar undanþágur“ frá sínum verstu reglum, ef landið afsalar sér sjálfstæði sínu og rennur bara inn í Evrópusambandið.
Einmitt.
Þeir sem telja að Evrópusambandið sé „hundleitt“ á því að virða samningsbundin réttindi fullvalda ríkja sem standa utan Evrópusambandsins, hvernig geta þeir trúað því að Evrópusambandið muni virða réttindi sömu ríkja þegar þau eru ekki lengur fullvalda, heldur runnin inn í sambandið og eiga allt sitt undir ókosnum embættismönnum í Brussel?
Það er ein leið til að trúa þessu. Fyrst ákveða menn að kjósa Samfylkinguna í vor. Annað hvort Stóru-Samfylkinguna, sem nýlega tók upp nafnið „Jafnaðarmannaflokkur Íslands“, eða Litlu-Samfylkinguna, sem nýlega tók upp nafnið „Björt framtíð“. Þegar þetta hefur verið ákveðið koma aðrar ranghugmyndir í réttri röð, án þess að menn þurfi að gera neitt sérstakt. Það flýtir fyrir að hlusta á rétta þætti á RÚV, en er ekki nauðsynlegt.