Helgarsprokið 10. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 41. tbl. 17. árg.

Þetta er ekkert ofboðslega flókin spurning sem Kjartan Magnússon borgarfulltrúi lagði fyrir Jón Gnarr borgarstjóra 4. september.

Hver er heildarbyggingarkostnaður við Hörpu og tengd mannvirki á núverandi verðlagi? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um áfallinn kostnað, s.s. vegna lóðakaupa, jarðvinnu, sjófyllingar, byggingar, glerhjúps, gatnatenginga, torggerðar, lóðafrágangs, bílastæðahúss o.s.frv. Þá er óskað eftir yfirliti yfir þær framkvæmdir, sem eftir eru eða standa yfir og kostnaðaráætlanir vegna þeirra.

Svarið kom 15. janúar, nær fjórum mánuðum síðar, ef svar skyldi kalla því það vantaði allan kostnað við byggingarframkvæmdir og annan kostnað fyrir árið 2009, en framkvæmdir hófust nokkrum árum áður. Örn Bárður Jónsson sóknarprestur hefur að vísu tilkynnt í Ríkisútvarpinu að árið 2009 sé í raun árið 1 og því má gera ráð fyrir að einhverjir líti svo á að þeir þurfi ekki að skila bókhaldi fyrir upphaf tímans.

Kjartan hefur hins vegar sent Jóni Gnarr spurninguna að nýju með von um að einnig verði upplýst um kostnað við Hörpuna fyrir upphaf veraldar Arnar Bárðar.

Vefþjóðviljinn beinir því hins vegar til Kjartans að spyrja frekar Björn nokkurn Blöndal sem er aðstoðarmaður borgarstjórans. Hinn 2. nóvember 2010 ræddi Ríkissjónvapið við Jón Gnarr um hækkanir á gjaldskrár orkuveitunnar og útsvari.

Fréttamaður: Í nýrri fjárhagsáætlun Orkuveitu Reykjavíkur er gert ráð fyrir fjögurra og hálfs milljarða króna hagnaði á næsta ári. Fréttastofa spurði hvort uppsagnir og gjaldskrárhækkanir Orkuveitunnar væru nauðsynlegar í þessu ljósi.

Borgarstjóri: Þetta eru svona einhverjir talnaleikir sem að, ég kann ekki einu sinni að útskýra þá sko.

Fréttamaður: Fjögurra og hálfs milljarða króna hagnaður, það hljómar ekki eins og illa statt fyrirtæki, hvort sem þetta eru talnaleikir eða ekki.

Borgarstjóri: Nei ég bara ég skil ekki, skil ekki hvernig hægt er að fá þetta út, fá þetta út, ég man ekki hvað orðin heita einu sinni sem að eru notuð til þess að setja þetta svona upp.

Fréttamaður: En en en…

Borgarstjóri (snýr sér við): Björn, hvað heitir þetta aftur?

Björn Blöndal (aðstoðarmaður borgarstjóra, birtist undan vegg): Nú, náttúrlega skoða skuldirnar, sko, áður en við spurjum…

(Drengur með jólasveinahúfu hleypur í burtu.)

Borgarstjóri: Já það er eitthvað svoleiðis, já þetta er eitthvað…

Björn Blöndal: Það eru talsvert stórir gjalddagar á næsta ári

Borgarstjóri: Já.

Björn Blöndal: Sem þarf að eiga fyrir.