Laugardagur 9. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 40. tbl. 17. árg.

Helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins árið 2003. Flokkurinn telur sig luma á fleiri góðum tillögum um lánamál.
Helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins árið 2003. Flokkurinn telur sig luma á fleiri góðum tillögum um lánamál.

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því að Framsóknarflokkurinn ætli að „skipa starfshóp til að útfæra afnám verðtryggingar nýrra neytendalána.“

Nú veit Vefþjóðviljinn ekki betur en að í mörg ár hafi Íslendingum boðist óverðtryggð lán til húsnæðis- og jafnvel alls kyns tækjakaupa. Yfirdráttarlán eru einnig óverðtryggð. Ætlar Framsóknarflokkurinn að fækka þeim kostum sem landsmönnum bjóðast með því að banna verðtryggð lán? Treystir hann neytendum ekki til að velja?

En stóra spurningin sem vaknar við þessi fyrirheit Framsóknarflokksins um afskipti af lánamálum Íslendinga er hvort reynslan af slíkum afskiptum flokksins sé svo góð að ástæða sé til að hann reyni frekar fyrir sér á þeim vettvangi.

Er ekki hin helsta tillagan af flokksþinginu sú að „húsnæðislán verði leiðrétt á sanngjarnan hátt“? Eru það ekki helst verðtryggðu 90% lánin sem flokkurinn hafði forgöngu um að Íbúðalánasjóður fór að veita fyrir nær áratug? Lánin sem flokkurinn lét hækka úr 70 í 90% vill hann nú „leiðrétta“ til baka um 20%.