Föstudagur 8. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 39. tbl. 17. árg.

Fólkið sem kom Jóhönnu og Steingrími til valda snemma árs 2009.
Fólkið sem kom Jóhönnu og Steingrími til valda snemma árs 2009.

Framsóknarmenn halda nú flokksþing sitt og hafa yfir ýmsu að gleðjast, en nýjustu skoðanakannanir sýna fylgisaukningu þeirra. Niðurstaða EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu var ánægjuleg fyrir flesta Íslendinga og ekki er vafi á því að framsóknarmenn njóta hennar, en margir muna vel eftir öflugri baráttu forystumanna flokksins, ekki síst Sigmundar Davíðs formanns og Gunnars Braga þingflokksformanns, gegn öllum þremur Icesave-frumvörpum ríkisstjórnarinnar.

Eins er líklegt að hinn stjórnarandstöðuflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, gjaldi þess nú að margir minnast þess að meirihluti þingflokks hans tók þá afstöðu að styðja síðasta Icesave-samning, Icesave III. Enda var sú afstaða röng á þeim tíma, og lítur ekki betur út nú, þegar niðurstaða EFTA-dómstólsins liggur fyrir. Nokkrir þingmenn flokksins og margir almennir sjálfstæðismenn börðust hins vegar af krafti gegn samningnum og landsfundur flokksins hafði hafnað öllum löglausum kröfum á hendur Íslendingum.

Vefþjóðviljinn gagnrýndi þessa afstöðu forystu Sjálfstæðisflokksins harðlega á sínum tíma og stendur við hvert orð sem þar var látið falla. En menn mega hins vegar ekki gleyma að þrisvar, en ekki einu sinni, voru Icesave-lög samþykkt á þingi. Icesave I, Icesave II og Icesave III. Þessi þrjú eru engan veginn sambærileg að umfangi. Icesave I og Icesave II hefðu lagt óhugnanlegar byrðar á íslenska skattgreiðendur og rýrt lífskjör þeirra áratugum saman. Samfylkingin og Vinstrigrænir knúðu lög um Icesave I og Icesave II í gegnum þingið. Það var ekki fyrr en Icesave III kom sem meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins taldi – ranglega að mati Vefþjóðviljans  – að hagstæðara væri fyrir Íslendinga að semja en fara fyrir dómstóla. Icesave III var mun hagstæðari fyrir Ísland en hinir tveir, þó auðvitað hafi ekki verið rétt að samþykkja hannr.

Og Sjálfstæðisflokkurinn barðist fyrir því á alþingi að Icesave-III yrði lagt í þjóðaratkvæði. Sú tillaga var felld með atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna, enda tala þeir mikið fyrir lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslum.

Framsóknarflokkurinn stóð sig vel í Icesave-málunum og á skilið virðingu fyrir það. En í mörgum öðrum málum eiga þeir verri spretti. Ríkisstjórnin getur yfirleitt treyst á atkvæði úr þingflokki Framsóknarflokksins þegar hún vinnur sín mestu óþurftarverk. Þaðan kom til dæmis stuðningur við ákæruna á Geir Haarde og þaðan var andstaða við að afturkalla hana. Og ekki má gleyma því þegar þingflokkur Framsóknarflokksins leiddi vinstriflokkana til valda í lok janúar 2009. Ábyrgð Framsóknarflokksins á framvindunni síðan er því auðvitað veruleg. Og enn á eftir að koma í ljós hversu trúir framsóknarmenn verða í varðstöðunni um stjórnarskrá lýðveldisins og hvort vinstriflokkarnir ná að plata reynslulitla forystumenn Framsóknarflokksins þar á lokasprettinum.