Mánudagur 11. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 42. tbl. 17. árg.

Í gær var hér minnst á þá gríðarlega kostnaðarsömu byggingu, Tónlistarhúsið á hafnarbakkanum. Í það tröllaukna hús fer ótrúlega mikið skattfé. 

Við hrun bankanna gat ekki lengur farið fram hjá nokkrum manni hversu brjálæðislegar byggingaráætlanirnar voru. Þá gafst ráðamönnum kjörið tækifæri til að hætta við framkvæmdina og spara marga milljarða af opinberu fé. En jafnvel þá var haldið áfram að ausa. Menntamálaráðherra og þáverandi borgarstjóri í Reykjavík ákváðu sérstaklega að halda eyðslunni ótrauðar áfram.

Ríkisstjórnin hefur eytt vel á öðrum milljarði króna af opinberu fé í árásir á stjórnarskrána. Engin ástæða er til að standa í því brambolti, og auðvitað ekki nokkur ástæða til að gera það jafn ótrúlega illa og gert hefur verið.

Á dögunum var skrifað undir samninga um „fjármögnun“ Vaðlaheiðarganga. Í þau fara milljarðar. Allskyns brögðum var beitt til þess að koma í veg fyrir að hlutlaus úttekt færi fram á útreikningunum sem að baki eru sagðir búa.

Það vantar ekki peningana í gæluverkefnin.

Það eru hins vegar engir peningar til, þegar stefnir í að aðalsjúkrahús landsins verði óstarfhæft.

Það er eins gott að við völd er fyrsta hreina vinstristjórnin. Sem ver velferðarkerfið. Sem ber kvennastéttir sérstaklega fyrir brjósti. Sem er meira að segja búin að búa til starfsheitið „velferðarráðherra“, svo enginn þurfi að efast um hvar hjarta hennar slær. 

Í Sovétríkjunum hétu allir hlutir fallegum nöfnum.

Og þar var líka búin til orðmörg og falleg stjórnarskrá. Mannréttindin voru þar á hverri síðu.