Vefþjóðviljinn 34. tbl. 17. árg.
Síðasta hálmstrá þeirra sem töldu Íslendinga eiga að gangast undir Icesave ánauðina – hvort sem það var til að kenna börnum landsins „mannasiði“ eins og Sigmundur Ernir Rúnarsson vildi, væri „siðferðilega hollt“ eins og Guðmundur Heiðar Frímannsson taldi, því annars yrðum við sannkölluð „ræningjaþjóð“ eins og Stefán Ólafsson sagði eða bara til að greiða leiðina inn í ESB – var að EFTA-dómstóllinn myndi gera athugasemdir við framgöngu Íslendinga í málinu og á einhvern undraverðan hátt myndu þær athugasemdir breytast í fjárkröfur upp á mörg hundruð milljarða króna. Og hákarlinn myndi gleypa Íslendinga.
Þorsteinn Pálsson er fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, stuðningsmaður Icesave-ánauðarinnar, og núverandi fulltrúi í nefnd ríkisstjórnarinnar sem aðlagar Ísland að Evrópusambandinu ritaði grein í Fréttablaðið í gær um dómsniðurstöðuna:
Þeir sem forystu höfðu fyrir því að hafna samningum viðurkenndu hins vegar aldrei valdsvið EFTA-dómstólsins. Viku fyrir dómsuppkvaðninguna sagði forseti Íslands að dómstóllinn væri eins og lögfræðiskrifstofa sem gæfi ráðgefandi álit en réði ekki úrslitum máls. Þegar dómurinn var fallinn taldi forsetinn að hann hefði staðfest mesta lýðræðissigur í sögu Evrópu.
EFTA-dómstólinn var svipan sem notuð var á Íslendinga þegar beygja átti þá til hlýðni í Icesave-málinu. Ef ekki yrði gengist undir ánauðina myndi dómstólinn dæma Íslendinga fyrir brot á tilskipunum ESB um innstæðutryggingar og ekki síður fyrir að mismuna fólki eftir búsetu og þjóðerni. Eðlilega þætti engum gott að fá slíka umsögn um sig, jafnvel þótt hún hefði engin óhjákvæmileg fjárútlát í för með sér. En mikill meirihluti Íslendinga var engu að síður tilbúinn til að taka slíkum dómi frekar en að láta kúga sig til algerrar niðurlægingar – af breskum stjórnvöldum sem létu höggin og spörkin dynja á Íslendingum er síst skyldi í byrjun október 2008.
Þykir Þorsteini Pálssyni það fjárstæðukennt að Íslendingar, forsetinn sem aðrir, gleðjist yfir því að þessi hótun um EFTA-dómstólinn liggi ekki lengur í loftinu? Þessi undrun Þorsteins á gleði samlanda sinna er þeim mun furðulegri þegar haft er í huga að dómstólinn hafnaði gersamlega öllum hræðsluáróðrinum gegn Íslendingum.
En það þýðingarmesta við þennan dóm er auðvitað að ríki bera ekki sjálfkrafa ábyrgð á bönkum í gegnum innstæðutryggingakerfin. Um það stóð hin efnislega deila um Icesave.
Þeir sem segja nú að það hafi nú „bara“ munað svona 40 til 60 milljörðum króna (í erlendum gjaldeyri) á Icesave III og þessari niðurstöðu líta algerlega framhjá grundvallaratriðinu sem deilt var um.
Ríkisábyrgð á fjármálafyrirtækjum, ætluð og raunveruleg, var ein af meginástæðum fjármálakreppunnar á Vesturlöndum sem birtist árið 2008 og stendur enn.
Því blasir við sú spurning hvort Jóhanna og Steingrímur hafi ekki örugglega nýtt tímann undanfarin fjögur ár til að búa svo um hnútana að viðskipti einkabanka lendi aldrei á herðum skattgreiðenda? Og um það verði engin áhöld í framtíðinni?