Vefþjóðviljinn 35. tbl. 17. árg.
Það er að mörgu leyti þægilegt að taka við Samfylkingunni eins og Árni Páll Árnason gerir. Eftir fjögurra ára stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er staðan þannig að varla sjálf Jóhanna kæmi fylginu neðar. Nýr formaður mun ávallt fá einhvern vind í seglin fyrir það eitt að vera nýr formaður.
En til þess að sá vindur verði eitthvað meira en stuttur blástur þá þarf Árni Páll Árnason að sýna með áþreifanlegum hætti að Samfylkingin vilji nú ná sáttum í þjóðfélaginu.
Til þess hefur hann örfáar leiðir. Hann verður að hætta við eitthvað af því sem Jóhanna hefur staðið fyrir og hefur valdið sundrungu og óþörfum átökum. Inngöngubeiðnin í Evrópusambandið væri auðvitað tilvalin til slíks, en Samfylkingarmenn ráða hreinlega ekki við þá nauðsynlegu aðgerð. Sama má segja um meinlokurnar í sjávarútvegsmálum.
En þá er eitt eftir sem Samfylkingin getur gert.
Árni Páll Árnason getur tilkynnt að Samfylkingin sé hætt við að reyna að þrýsta atlögunni að stjórnarskránni í gegnum þingið á síðustu þingdögunum. Hún viðurkenni að undirbúningur málsins hafi ekki tekist eins og til hafi staðið og eins og verði að vera um stjórnarskrárbreytingar. Þess vegna verði fallið frá þessum tillögum núna, en flokkurinn áskilji sér rétt til að hefja raunverulega vinnu við stjórnarskrárbreytingar að loknum kosningum.
Með þessu móti næði Árni Páll að sýna greinileg skil milli ofstækis-Samfylkingarinnar og þeirrar Samfylkingar sem hann getur sagst vilja leiða. Með því myndi hann ekki aðeins styrkja sjálfan sig í sessi sem raunverulegur ráðamaður í flokknum, heldur myndi hann einnig ná að slá á þá sérstöðu sem einhverjir kjósendur halda að „Björt framtíð“ hafi á móðurflokkinn.
Þetta er tækifæri sem Árni Páll hefur núna. En hann verður að grípa það afdráttarlaust. Ef hann lætur málið þæfast áfram í þinginu meðan hann hugsar sig um, eða opnar aðeins á einhverjar breytingar á tillögunum, þá er tækifærið farið. Það er afar stutt til kosninga og hveitibrauðsdagarnir eru því miklu færri en ella. Hann hefur afar sterkt færi til að stimpla sig inn, en fáa daga til að grípa það.