Laugardagur 2. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 33. tbl. 17. árg.

Síðasta haust var birt skoðanakönnun, þar sem stuðningur og andstaða við aðild Íslands að Evrópusambandinu voru borin saman við svör fólks um stuðning við einstaka flokka. Þannig reyndust 12% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og 12% stuðningsmanna Framsóknarflokksins styðja aðild að Evrópusambandinu, en sama hlutfall, 12%, stuðningsmanna Samfylkingarinnar var andvígt inngöngu Íslands í sambandið.

Vefþjóðviljinn fjallaði um þessar niðurstöður og vakti þá meðal annars athygli á því hversu ólíkum tökum fjölmiðlamenn og álitsgjafar taka þessum minnihluta í hverjum flokki fyrir sig. Fjölmiðlamenn og álitsgjafar gera mikið úr minnihlutanum í Sjálfstæðisflokknum og í Framsóknarflokknum. Fjölmiðlamenn ræða mikið um hvort flokkanir klofni vegna þessa ágreinings, hvort meirihlutinn muni af óbilgirni sinni samþykkja stefnu sem minnihlutinn geti ekki fellt sig við, og hvort í þessum flokkum „leyfist aðeins ein skoðun“. Evrópusambandssinnaðir sjálfstæðismenn eru vinsælir viðmælendur Evrópusambandssinnaðra fjölmiðlamanna og er þar hælt fyrir að láta ekki undan óbilgirni meirihlutans.

En þegar kemur að Samfylkingunni þá hefur enginn áhyggjur af jafn stórum hópi flokksmanna. Enginn sem veltir fyrir sér hvort það sé ekki óbilgirni af meirihlutanum að samþykkja eindregna stefnu í Evrópumálum. Enginn sem telur ástæðu til að ræða við fullveldissinnaða Samfylkingarmenn. Í huga fjölmiðlamanna og álitsgjafa eru Samfylkingarmenn einfaldlega Evrópusambandssinnaðir og enginn ágreiningur um það.

Þó benda kannanir til þess að andstaða við Evrópusambandsaðild í Samfylkingunni sé jafn stór og stuðningur við aðildina er innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. 

Nú um helgina stendur yfir landsfundur Samfylkingarinnar. Fulltrúi fréttastofu Ríkisútvarpsins á fundinum, Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, sagði svo frá, í innskoti fréttastofu í útvarpsþættinum Vikulokunum í morgun: „Hér er búin að fara fram mikil umræða í morgun um Evrópumálin og pallborði var að ljúka þar sem voru Össur Skarphéðinsson og Hannes Swoboda, sem er forseti jafnaðarmanna í Evrópuþinginu, voru að telja hér upp kosti þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu en eins og allir vita þá er Samfylkingarfólk allt á einu máli um þá kosti.“.