Vefþjóðviljinn 26. tbl. 17. árg.
Nú keppast menn við að leggja fram tölur um hver skaði ríkissjóðs Íslands verður ef málaferli um Icesave „tapast“ fyrir EFTA dómstólnum.
Þetta eru alveg ótímabærar vangaveltur. Það kann að vera að EFTA dómstóllinn komist að því að íslenska ríkið mismunaði Bretum og Hollendingum þegar innistæður á Íslandi voru fluttar yfir í nýja Landsbankann. Það kann líka að vera að EFTA dómstóllinn komist að því að íslenska ríkið hafi ekki innleitt „á réttan hátt“ tilskipun ESB um tryggingasjóð innstæðna. Verði þetta niðurstaða dómsins á mánudaginn mun íslenska ríkið vissulega þurfa að taka þá niðurstöðu til fræðilegrar skoðunar út frá íslenskum lögum og reglum og gera Eftirlitsstofnun EFTA grein fyrir hvernig verði brugðist við í lagalegu tilliti. Íslenska ríkið mun þá, ef það vill áfram tilheyra EES, þurfa að breyta þeim reglum sem við eiga. Í því sambandi kemur að sjálfsögðu til skoðunar hin mikla endurskoðun bankamálalöggjafar ESB sem stendur einmitt núna yfir.
Það er misskilningur að verði þetta niðurstaðan þurfi íslenska ríkið að hafa einhvers konar forgöngu um samninga við Breta og Hollendinga og að af því tilefni þurfi nú að liggja fyrir útreikningar þeir sem menn keppast nú við að leggja fram um mögulegar bætur til handa þessum þjóðum. Málaferlin fyrir EFTA dómstólnum laut einungis að lögfræðilegri túlkun reglna Evrópusambandsins. Það er svo allt annars eðlis það hvað Breta og Hollendingar kunna að gera í framhaldinu. Kjósi þeir að höfða skaðabótamál gegn Íslendingum, með niðurstöðu EFTA sem vegarnesti , þurfa þeir að sýna fram á raunverulegt tjón af völdum brotsins sem EFTA dómstóllin kann að kveða upp úr um á mánudaginn. Í því sambandi þarf líka að líta til þeirrar endurskoðunar sem fram á bankamálatilskipun ESB sem og þeirrar endurgreiðslu sem innstæðueigendur hafa fengið langt umfram það sem lög kváðu á um og það meðal annars á kostnað íslenskra skattgreiðenda og lífeyrissjóða.