Helgarsprokið 27. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 27. tbl. 17. árg.

„Stórfyrirtæki“ eru ein af helstu grýlum samtímans. Eins og Matt Ridley bendir á í bók sinni The Rational Optimist hefur ekki enn verið gerð Hollywood kvikmynd þar sem stórfyrirtæki kemur við sögu án þess að forstjóri  þess leggi á ráðin um að koma fólki fyrir kattarnef eða önnur óþverrabrögð. 

Auðvitað er þekkt að stórfyrirtæki þrýsti á stjórnmálamenn um lög og reglur sem gera öðrum, minni og nýjum, fyrirtækjum erfiðara fyrir í samkeppni. Nær allar nýjar reglur, eftirlit og skattar veita stórum fyrirtækjum forskot á þau minni. Stórfyrirtæki munar hlutfallslega minna um að starfsmaður sé upptekinn við að svara fyrirspurnum frá eftirlitsaðilum og uppfylla alls kyns reglugerðir en lítið fyrirtæki með fáa starfsmenn.

En þessi vandi verður aðeins leystur með því að hafa taumhald á stjórnmálunum og fækka tækifærunum sem stjórnmálamenn hafa til fyrirgreiðslu af þessu tagi.

En að því sögðu, eru stórfyrirtækin ekki að gleypa heiminn? 

Meðalfyrirtækið í Bandaríkjunum hafði 25 starfsmenn fyrir aldarfjórðungi. Nú eru þeir 10. 

Helmingur stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna árið 1980 er nú horfinn af sviðinu með yfirtökum og gjaldþrotum. Helmingur stærstu fyrirtækjanna nú hafði ekki verið stofnaður árið 1980.

Já og hvernig er það með fyrirtækin sem voru stærst á Íslandi fyrir 10 árum? Hve mörg af þeim er enn á lífi og í höndum sömu eigenda? Tvö? Þrjú?