Föstudagur 25. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 25. tbl. 17. árg.

Undanfarin ár hefur Ríkisútvarpið og ekki síst fréttastofa þess verið harðlega gagnrýnt fyrir pólitíska hlutdrægni. Það hefur vakið sérstaka athygli að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins virðast forðast að svara slíkri gagnrýni efnislega. Rökstuddri gagnrýni er ýmist svarað með þögn eða þá dónaskap. En hin almenna fjarvera efnislegra varna Ríkisútvarpsins er hugsanlega einhver vísbending um málstaðinn í Efstaleiti.

Á dögunum var Páll Magnússon núverandi útvarpsstjóri í viðtali við DV, og vefritið Eyjan endursagði síðan hluta viðtalsins. Samkvæmt endursögninni bregst Páll „reiður við ásökunum um að fréttamenn Ríkisútvarpsins séu ekki faglegir eða dragi taum tiltekinna stjórnmálaafla í samfélaginu, enda séu slíkar ásakanir afar ósanngjarnar gagnvart starfsmönnum RÚV.“ Þetta mun Páll rökstyðja svo: „Á bak við ásökun um að við séum að þjóna undir einhvern stjórnmálaflokk felst önnur og alvarlegri ásökun um að starfsmenn hér innandyra séu óheiðarlegir, að annaðhvort séu allir starfsmenn fréttastofunnar vísvitandi þátttakendur í pólitísku plotti til að draga taum einhvers flokks á kostnað annars eða þá að allir starfsmenn fréttastofunnar séu þær geðlurður að þjóna með þessum hætti undir vafasöm sjónarmið yfirmanna sinna, fréttastjóra eða útvarpsstjóra.“

Það er vissulega auðveldara að rökræða ef menn mega sjálfir ráða hvaða rökum andstæðingurinn beitir. Hver hefur haldið því fram að „allir starfsmenn fréttastofunnar“ séu „vísitandi þátttakendur í pólitísku plotti“? Að minnsta kosti hefur Vefþjóðviljinn margsinnis sagt að slíkt detti honum ekki í hug. Honum finnst hins vegar líklegra að einstakir starfsmenn Ríkisútvarpsins miði bæði fréttaflutning sinn og önnur störf, svo sem þáttastjórnun, val umræðuefna, val viðmælenda og slíkt, við eigin heimsmynd og hugarheim. Og þegar slíkt er gert, og ef yfirmenn taka ekki í taumana, þá er fljótt hætta á slagsíðu, ekki síst ef fréttamenn og dagskrárgerðarmenn eru í reynd fremur einsleitur hópur.

En gaman væri ef yfirmenn Ríkisútvarpsins treystu sér í efnislegar umræður um störf sín og sinna manna. Ef þeir treystu sér til að verjast efnislega, þegar sett er fram rökstudd gagnrýni á val fréttaefnis, umræðuefnis eða viðmælenda. 

Og svo dæmi sé tekið, úr því vitnað var til viðtals við Pál Magnússon. Í viðtalinu minnist hann á  þann atburð á þegar forseti Íslands gagnrýndi fréttastofu Ríkisútvarpsins og einstakan fréttamann mjög harðlega á síðasta ári. Um þetta segir Páll: „Atlaga forsetans að RÚV var í senn ómakleg og ómerkileg því það var enginn efnislegur fótur fyrir gagnrýni hans heldur var hún taktískt útspil í kosningabaráttu sem honum fannst sniðugt en átti sér engan stoð í veruleikanum. Að minnsta kosti er hægt að segja að þetta hafi ekki verið sérstaklega forsetaleg framganga.“

En hvað sagði fréttastofa Ríkisútvarpsins um þetta mál á sínum tíma? Þegar þjóðhöfðinginn réðist mjög harkalega á ríkisfréttastofuna, hvernig var fjallað um það mál í fréttum Ríkisútvarpsins? Þarna gerðist annað hvort, að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafði verið misnotuð til að hygla frambjóðanda í forsetakosningum eða þá að forseti Íslands fór með rangindi og ósanngirni á opinberum vettvangi til að styrkja stöðu sína í kosningunum. Hvort sem var réttara, þá var augljóslega mikið mál á ferð. Og hvernig brást fréttastofa Ríkisútvarpsins við? Sagði hún ekki örugglega vandlega frá málinu? Ef Vefþjóðviljanum skjátlast ekki, þá sagði hún ekki einu orði frá málinu. Þeir sem einungis fá fréttir úr Ríkisútvarpinu hafa því ekki heyrt af þeim ásökunum sem forseti Íslands setti fram á hendur fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Er Páll Magnússon reiðubúinn að ræða mál eins og þetta efnislega, eða vill hann halda sig við upphrópanir um geðluðrur og tal um allsherjarsamsæri? Útvarpsstjóra finnst framganga forseta Íslands hafa varið „ómakleg og ómerkileg“. Sögðu undirmenn hans frá þeirri framgöngu á sínum tíma?