Fimmtudagur 24. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 24. tbl. 17. árg.

Í dag eru liðin 16 ár frá því Andríki hóf daglega útgáfu Vefþjóðviljans. Vefþjóðviljinn væri því loks orðinn sjálfráða ef sjálfræðisaldurinn hefði ekki verið hækkaður í 18 ár á „frjálshyggjuárunum“ fyrir hrun. 

Egill Helgason starfsmaður Ríkissjónvarpsins skrifaði á Eyjuna á dögunum að Vefþjóðviljinn hafi „eitt sinni verið vinsæll vefur.“ Það er nú það. Sjálfsagt er eitthvað til í því að í árdaga internetsins virkaði Vefþjóðviljinn fyrirferðarmeiri enda  fyrir daga almennra netfrétta, Fésbókar, hvers manns bloggs og stóryrða í athugasemdum.

Lestur á Vefþjóðviljanum hefur hins vegar haldist í hendur við almenna útbreiðslu og notkun netsins. Hann jókst hratt fyrsta áratuginn en hægar síðan. 

Lesendur hafa því aldrei verið fleiri en nú. Mörg þúsund manns sækja vef Andríkis heim til þess eins að lesa skrifin sem hér birtast. Það er þakkarverður áhugi ekki síður en athugasemdir sem berast frá lesendum, hvort sem það eru þakkir, vinsamlegar ábendingar eða umvandanir.

Á þessum tímamótum í lífi barnsins er Andríki þó efst í huga þakklæti til þeirra sem, jafnvel frá upphafi, hafa stutt útgáfuna og annað brölt félagsins með framlögum, ýmist með stöku greiðslu eða mánaðarlegum hætti á greiðslukorti eða millifærslu. 

Það er þeim góða hópi vonandi jöfn ánægja að eiga þátt í þessu.

Þeir sem vilja slást í hópinn geta gert það með einföldum hætti hér.