Þriðjudagur 15. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 15. tbl. 17. árg.

Nú stendur yfir á Spáni handboltamót sem þeir, sem halda mótið, kalla heimsmeistarakeppni í handknattleik. Þangað eru komin lið frá mörgum löndum, þar á meðal eitt sem skipað er íslenskum handknattleiksmönnum. Þeir sem halda mótið hafa samið við sjónvarpsstöðvar víða um heim um einkarétt til að taka upp leiki og senda út, þar á meðal við einkarekna sjónvarpsstöð á Íslandi. Sú stöð sendir út leiki íslensku handknattleiksmannanna, og hafa áskrifendur stöðvarinnar aðgang að útsendingunni, en aðrir ekki.

Þetta finnst ýmsum mjög ósanngjarnt. Þarna sé „íslenska landsliðið“ að leika, það sé „stórviðburður“ sem allir eigi að geta fylgst með, sér að kostnaðarlausu. Þrýst er á menntamálaráðuneytið að setja saman lista yfir atburði sem verði að vera í opinni dagskrá. Ráðherra segist hafa verið að vinna í því máli í tvö ár.

Allt er þetta fráleitt.

Atburður verður ekki „þjóðarviðburður“ eða „almenningseign“ við það eitt að margir hafi áhuga á honum. Hér gerist ekki annað en það að hópur einstaklinga og einkaaðila stendur fyrir íþróttaleikjum og selur síðan öðrum einkaaðila rétt til að taka spriklið upp og senda út, til þeirra sem vilja kaupa. Ekkert í þessu kemur öðrum við, þótt þeir kunni að hafa áhuga á því. Þótt einkaaðilinn Handknattleikssamband Íslands kjósi að nefna lið sitt „íslenska landsliðið“ þá kemur það málinu ekkert við. Hver sem er getur myndað lið með kunningjum sínum, kallað það „Úrvalslið norðurhvels“ og skorað á eitthvert lið annars staðar. Jafnvel þótt fjöldi manns fylltist áhuga á leiknum, þá veitti það þessum fjölda manns engan rétt til að banna að leikurinn yrði spilaður fyrir lokuðum dyrum. Eða krefjast þess að sjónvarpsútsendingar af leiknum náist allsstaðar frítt.

Áhugi manna veitir þeim engan rétt. 

Ef menn færa sameignarstefnu sína hins vegar á þessa braut, hvers vegna þá að takmarka sig við spennandi íþróttaleiki? Sá maður sem hefur ekki séð nýjustu James Bond-kvikmyndina, er hann maður með mönnum? Eða vinsælasta leikritið í leikhúsunum þetta árið, er einhver sanngirni í því að það sé bara aðgengilegt fyrir þá sem hafa keypt sér miða? Hvaða réttlæti er í því að einhverjir þurfi að fylgjast með þjóðmálaumræðunni en fái ekki Morgunblaðið nema vera áskrifendur eða kaupa eintak úti í búð? Er menningarlífið eitthvað ómerkilegra en boltaleikur, hvers vegna þurfa menn að borga sig inn á helstu tónleika? Ætti ekki að útvarpa þeim öllum?

Eina röksemd hafa þeir þó sem eru reiðir yfir því að sjá ekki handboltaleikina nema þeir kaupi áskrift að sjónvarpsstöð. Íþróttahreyfingin þiggur gríðarlega háa styrki frá skattgreiðendum á hverju ári. En gegn þeim styrkjum eiga menn einfaldlega að berjast. Íþrótti og leiki eiga menn að stunda á eigin vegum og á eigin kostnað. Þá geta þeir líka með hreinni samvisku selt sjónvarpsútsendingaréttinn til þess sem hæst býður.