Mánudagur 14. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 14. tbl. 17. árg.

Þegar fiskistofnanir við landið hjarna við er óhætt að veiða meira. Við það eykst hlutur allra útgerða í kerfinu. Kvótinn stækkar.

En við þetta er viðbúið að þess sé krafist að viðbótinni verði úthlutað til annarra en þeirra sem fyrir eru í útgerð. Vefþjóðviljinn heyrði mann á Bylgjunni krefjast þess að aukinn kvóti yrði boðinn upp. Er ekki eðlilegt að fleiri fái að komast að þegar kvótinn er aukinn, spurði hann.

En einn höfuðkosta kvótakerfisins er að verðmæti útgerðarfélaganna er tengt styrk fiskistofnanna. Það er félögunum hagsmunamál að stofnarnir styrkist því þar með eykst verðmæti kvótans. Þetta dregur mjög úr líkum á því að útgerðin krefjist óhóflegra veiðiheimilda.

Það var vandamál fyrir daga kvótakerfisins að enginn hafði svo beina langtímahagsmuni af því að verja fiskistofnana fyrir ofveiði.