Helgarsprokið 13. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 13. tbl. 17. árg.

Í Bóksölu Andríkis hafa margar mjög athyglisverðar bækur verið boðnar til sölu undanfarin ár og sumar eru fyrir löngu uppseldar og ófáanlegar. Þar á meðal er stórmerk bók þar sem fjallað er af mikilli þekkingu um mál sem íslenskir vinstrimenn hafa lengi haft lítinn áhuga á að séu rædd.

Moskvulínan eftir Arnór Hannibalsson skiptist í raun í tvennt. Í fyrri hlutanum er fjallað um samskipti Kommúnistaflokks Íslands við Komintern og Kommúnistaflokk Sovétríkjanna. Í síðari hlutanum er fjallað um Halldór Laxness og Sovétríkin. Hvorug sagan má gleymast, þó marga íslenska vinstrimenn langi mikið til að svo fari. Tengsl íslenskra vinstrimanna við stjórnvöld í Kreml voru ótrúlega náin árum saman. Í ljós hefur komið að íslenskir kommúnistar lutu í raun stjórn hinna erlendu skoðanabræðra sinna og unnu ötullega að því að Ísland yrði hluti af alþjóðlegu stórríki sósíalismans. Þráðurinn frá kommúnistum fyrri hluta síðustu aldar og til róttækari hluta íslenskra vinstrimanna á síðari hlutanum og lengur, var ótrúlega óslitinn. 

Halldór Kiljan Laxness var mikilvægasti áróðursmaður íslenskra sósíalista. Hann beitti stílgáfu sinni ótæpilega í baráttu fyrir skelfilegum málstað og á stundum einnig gegn þeim stjórnmálamönnum sem sósíalistum og öðrum alræðissinnum stóð mest ógn af hverju sinni. Og á árum þegar utanferðir Íslendinga voru fátíðar fór hann um Sovétríkin og skrifaði ferðasögur af þunga sjónarvottsins, og bar lof á ástandið. Þegar milljónir manna sultu í hel í Úkraínu vegna árása stjórnvalda á undirstöðuatvinnuveg landsmanna, landbúnaðinn, skrifaði Halldór Laxness Íslendingum og sagðist hafa farið um landið þvert og endilangt og hvergi séð neitt nema uppgang. Þetta væri „yndisleg húngursneyð“.

Þessi saga er rakin í Moskvulínunni eftir þeim heimildum sem þá voru tiltækar. Síðan hafa komið út fleiri rit sem sterklega má mæla með, ekki síst Sovét-Ísland óskalandið  eftir Þór Whitehead og Íslenskir kommúnistar 1918-1998 eftir Hannes H. Gissurarson

Arnór Hannibalsson fór til náms í Moskvu ungur maður, enda gerði hann sér þá miklar væntingar um framtíð með sósíalisma. Hafði meðal annars lesið vandlega glæsilegar frásagnir Halldórs Laxness af því hvernig allt virtist blómstra undir miðstýrðum áætlunarbúskap, þar sem græðgi og sérhygli einkaframtaksins var hvergi nærri. Arnór var ekki eini Íslendingurinn sem fór í austurveg. Þangað fóru fleiri, flestir á vegum íslenskra vinstrimanna. En Arnór var einn þeirra fáu sem þorðu að segja satt, þegar hann kom heim. En því var ekki vel tekið.

Þegar Arnór Hannibalsson kom heim úr námi sínu í Sovétríkjunum og Póllandi vildi hann segja frá því sem hann hefði séð og reynt. En þar rak hann sig á vegg, eða kannski ætti fremur að tala um múr. Í Íslenskum kommúnistum 1918-1998 er sérstakur kafli þar sem raktar eru tilraunir Arnórs til að fá birtar greinar og ritgerðir í blöðum og tímaritum sósíalista á árunum 1961 til 1963, en Þjóðviljinn, Tímarit Máls og menningar og Réttur neituðu öll að birta greinar hans. 

En hvernig var það þegar Moskvulínan kom út, undir síðustu aldamót? Var þá ekki allt annar tíðarandi? Morgunblaðið talaði við Arnór sjötugan, haustið 2004, og þar er hann spurður hvort upplýsingarnar í bókinni hefðu ekki vakið mikla athygli: „Ekki var ég var við það. Bókin var þöguð í hel“, svarar Arnór. Og hvers vegna? „Það var og er enn fjölmennur hópur manna, sem vill fyrir alla muni að þessi samskipti haldist í þagnargildi. Þeir vilja ekki að sannleikanum um samskipti íslenskra kommúnista við Moskvu sé haldið á lofti.“

Vorið eftir að Moskvulínan kom út, skrifaði gamall maður sem margt hafði séð og reynt um sína daga, stutta grein um hana í Morgunblaðið. Þar sagði Benjamín H. J. Eiríksson meðal annars: „Sósíalisminn er orðinn stór þáttur í hugsunarlífi íslenskra menntamanna. Því miður. Þetta virðist svo einfalt og sjálfsagt mál. En þegar út í framkvæmdina kemur, þá kemur annað í ljós. Þá kemur ýmislegt í ljós. Frelsi mannsins í efnahagsmálum er þá mikilvægara en í fyrstu virðist. Þetta frelsi er þá undirstaðan undir öllu hans frelsi. Án þessa frelsis getur hann ekki orðið annað en þræll. Það væri ákaflega æskilegt að íslenskir menntamenn læsu bók Arnórs og legðu orð hans sér á hjarta, því ég veit að hann hefir keypt þau dýru verði. Í sumum efnum þurfti ég að ganga sömu braut og hann. Þessi bók er sannarlega skylulesning fyrir Íslendinga, raunar alla. Það eru fleiri en Íslendingar sem þurfa sannleikann í þessum málum. En það er hann sem prófessor Arnór flytur þjóð sem flutt hefur verið mikið annað af miklum sannfæringarhita. Hann þyrfti sannarlega að þýða á önnur tungumál og gefa út.“

Það er bæði gömul saga og ný að íslenskir vinstrimenn vilja ekki að um sum mál sé fjallað. Nýta þeir óspart aðstöðu sína í menningarlífi og á fjölmiðlum til að stýra því hvaða mál fá athygli en önnur mál vilja þeir helst að hverfi í þögnina. Það er mikilvægt að vinstrimönnum verði ekki að þeim óskum sínum. Það er mjög mikilvægt að nýjar kynslóðir fræðist og skilji hvernig  vinstrimenn beittu sér. Það er ekki aðeins mikilvægt til að skilja fortíðina heldur einnig svo margt á síðari tímum. Ótrúlega margt af atburðum úr stjórnmálabaráttu fyrri hluta síðustu aldar virðist eiga sér hliðstæðu á síðari tímum.

Það væri afar æskilegt að Moskvulínan yrði endurútgefin á næstu árum. Og það má mæla mjög sterklega með því að fólk kaupi og lesi stórfróðlegar bækur eins og Sovét-Ísland og Íslenska kommúnista 1918-1998, en báðar fást enn í Bóksölu Andríkis. Vinstrimenn vilja að sem fæstir lesi þær fróðlegu bækur.