Miðvikudagur 16. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 16. tbl. 17. árg.

Fyrir nokkrum árum var stofnað svonefnt mannréttindaráð hjá Reykjavíkurborg þar sem puða sjö manns á launum hjá skattgreiðendum. Jafnframt var komið á legg mannréttindaskrifstofu, sem heyrir undir ráðið. Á skrifstofunni starfa nú 10 manns, þar af er annar hver starfsmaður „stjóri“. Undir ráðið heyra svo ýmsir „starfshópar“. 

Nýlega gaf mannréttindaskrifstofan úr fréttaritið Mannorð. Í haus á forsíðu ritsins eru ýmis tákn sem eiga líklega að vera til marks um víðsýni skrifstofunnar og ráðsins, sem af hógværð kenna sig við mannréttindin. Til að mynda er þar maður í hjólastól, smábarn, jörðin, trúartákn og svo hið vinalega og múltíkúltí merki hamar og sigð. Síðastnefnda merkið er ekki þekkt sem annað en merki einnar helstu morðvélar mannkynssögunnar, Sovétríkjanna.

Hvað myndu menn segja ef mannréttindaskrifstofan gæfi út fréttablaðið Mannorð með hakakrossinum á forsíðu? Sjálfsagt yrði allt vitlaust.

En við hamar og sigð mun enginn segja neitt.