Laugardagur 5. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 5. tbl. 17. árg.

Ef marka má almenna umræðu þykir ekki mjög fínt að stofna nýtt félag um eignir og rekstur en skilja skuldir og aðrar syndir og vandræði eftir í gamla félaginu. Að baki standa svo gjarnan eignarhaldsfélög með huldueigendur.

Þetta er stundum nefnt útrásarflétta.

Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður rakið hýsa furðufélögin Alþýðuhús Reykjavíkur ehf, með Fjölni og Fjálar sem helstu eigendur, og Sigfúsarsjóður höfuðstöðvar Samfylkingarinnar við Hallveigarstíg. Starfsemi þessara félaga er svo gagnsæ að hún er nær ósýnileg.

Fjárhagslegur styrkur þessara skjólshúsa og bakhjarla Samfylkingarinnar er ágætis háðsglósa um lög um fjármál stjórnmálaflokkanna sem banna styrki yfir 400 hundruð þúsund krónum. Þetta er svona eins og bjórbannið; bannað að drekka 4,5% en gjörðu svo vel og fáðu þér 45% brennsa.

En Samfylkingin er vön að hæðast að þeim lögum því á meðan hún var að semja þau og samþykkja á Alþingi árið 2006 þáði hún til að mynda 23,5 milljónir króna frá FL Goup, Baugi, Dagsbrún og Íslandsbanka, 15 milljónir frá Kaupþingi og Exista og 8,5 milljónir frá Landsbankanum. Ekki hefur hvarflað að Samfylkingarmönnum að skila þessum tugmilljónastyrkjum eins og annar flokkur ákvað að gera.

Þótt fjárhagslegir bakhjarlar fyrr og nú séu máttugir þykir Samfylkingin ekki beysið vörumerki eftir að hafa setið í ríkisstjórn bæði fyrir og eftir hrun.

Lá þá ekki beint við að stofna nýtt skuldlaust félag og skilja ruglið eftir í gamla félaginu?