Vefþjóðviljinn 6. tbl. 17. árg.
Allt fram á kvöld munu fjölmargir Íslendingar kveðja jólin með flugeldaskothríð, því á þrettánda verða að vera nokkrir manngerðir mánar á himni, með þeim hrímföla og gráa. Í þessa iðju, að ekki sé talað um gamlárskvöldið, eyðir venjulegt fólk stórfé, jafnvel tugum eða hundruðum þúsunda króna, þeir sem ákafastir eru.
Ætli forræðishyggjumenn langi ekkert til að banna þetta?
Forræðishyggjumenn færa sig alltaf lengra og lengra upp á skaftið. Sífellt er þrengt að frelsi hins almenna manns til að haga lífi sínu eftir eigin vilja, og til að ráðstafa eigum sínum eins og hann sjálfur vill. Er ekki auðvelt að rökstyðja að flugeldakaup séu mjög óskynsamleg? Hversu lengi endist gleðin af flugeldinum, hálf mínúta? Þá þarf að skjóta upp öðrum eða standa skömmustulegur og njóta sýningar nágrannans án þess að leggja nokkuð af mörkum sjálfur.
Það er mjög auðvelt að rökstyðja að fyrir peninginn sem menn leggja í flugeldakaup, fái þeir engin varanleg verðmæti og næstum engin skammtímaverðmæti. Þannig geta menn hæglega fært rök að því að flugeldakaup séu óskynsamleg og í raun hrein sóun á verðmætum. Og að það sé hneykslanlegt að einhverjir gróðamenn séu að hagnast á flugeldafíkn annars fólks.
Auðvitað þarf ekki að taka fram að Vefþjóðviljinn vill ekki banna flugeldakaup. En rök sem þessi eru hins vegar æ oftar notuð þegar forræðishyggjumenn vilja stjórna lífi annarra. Hvernig er til dæmis með „smálánin“? Þar hafa stjórnmálamenn og vandamálaþættir Ríkissjónvarpsins sannfært sig og aðra um að fólk sé að taka mjög óskynsamleg lán á óhagstæðum vöxtum. Forræðishyggjumenn á þingi vilja banna lánin. Vextirnir eru svo óhagstæðir. Sá sem tekur 40.000 króna smálán þarf að borga 48.900 krónur eftir fimmtán daga.
En hvers vegna vill forræðishyggjumaðurinn banna öðru fólki að taka fimmtíu þúsund króna smálán en leyfa því að kaupa sér flugelda fyrir miklu hærri upphæð?
Hver segir að forræðishyggjumaðurinn vilji leyfa flugeldasöluna? Það, að hann hafi ekki enn lagt til að hún verði bönnuð, þýðir ekki að hann vilji leyfa hana. Forræðishyggjumennirnir taka þetta í skrefum. Þeir vita sem er, að ef þeir segðu upphátt hversu mjög þeir vilja ráðstafa lífi fólks, þá yrði hörð andspyrna. En þegar þeir gera þetta í smáum skrefum, þá snúast varla aðrir til varna en eiga mjög beinna hagsmuna að gæta á hverju sviði.
En þeir ætla aldrei að hætta. Einn daginn eru það smálánin. Næsta dag verður fólki bannað að hjóla nema vera með hjálm. Næsta dag má það ekki neyta munntóbaks. Svo verður lagður á „sykurskattur“. Reykingar eru bannaðar víðar og víðar. Alls kyns viðskiptaskilmálar verða bannaðir, af því að einhverjir hafa farið flatt.
Og hver heldur að forræðishyggjumaðurinn nemi staðar þar? Þegar hann hefur fengið að banna munntóbak – og ekki getur hann þar stutt sig við ofsahræðslu nútímamannsins við „óbeinar reykingar“ – hvers vegna ætti hann þá ekki að geta bannað eitthvað annað sem ekki kemur öðrum en neytandanum við? Þeir, sem mótmæla ekki þegar löggjafinn snýst gegn neftóbaki, með hvaða rökum ættu þeir að verjast ef löggjafinn sneri sér af því sem þeim sjálfum líkar vel? Ef næstu forræðismenn myndu vilja banna skíði, af því að menn geta hæglega fótbrotnað, eða rauðvín því menn geti orðið drykkjusjúklingar, eða smjör af því að menn geta fengið of hátt kólesteról, – með hvaða rökum ætlar þá sá maður að mótmæla sem sá ekkert að því að fyrri forræðismenn bönnuðu neftóbak?
Það er slæmt þegar afstaða fólks til boða og banna ræðst fyrst og fremst af þröngu sjónarhorni á bannvarninginn, en ekki af grundvallarsjónarmiðum. Bann við því að veitingahúsaeigendur leyfi gestum sínum að reykja á veitingastaðnum, er dæmigert um þetta. Afstaða mjög margra til þess atriðis ræðst af persónulegu sjónarhorni: Mér finnst ömurlegt að finna tóbakslykt af fötunum mínum eftir kráarferð. Mér finnst fúlt að mega ekki fá mér smók með bjórnum. Mér finnst sígarettulykt vond. Ég sakna vindlailmsins.
En auðvitað á afstaðan til þessa atriðis að fara eftir öðru. Hver á að setja húsreglur, húsráðandi eða gestir hans? Er einhver neyddur inn á krána? Ef Pétur opnar veitingastað og tilkynnir öllum að þar verði reykingar leyfðar, á Páll þá rétt á því að fara inn á staðinn og banna Pétri að leyfa reykingarnar? Og panta sér svo lítinn bjór.
Og ef svarið er nei, Páll á ekki rétt á þessu, hvaðan kemur þá öllum Pálunum sami réttur? Á ríkið eitthvað með það að gera, að banna Pétri að opna þennan stað? Á rétti hvers brýtur Pétur? Á Páll rétt á því að Pétur reki fyrir hann reyklausan stað?
Forræðismenn munu aldrei hætta sjálfviljugir. Þeir munu ekki hætta fyrr en það fólk sem vill lifa í frjálsu þjóðfélagi snýst til almennrar varnar gegn forræðishyggjunni. Ekki aðeins þegar reynt er að banna eitthvað sem því líkar vel, heldur ekki síður þegar reynt er að banna eitthvað sem það sjálft gæti ekki hugsað sér.