Föstudagur 4. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 4. tbl. 17. árg.

Það er líklega rétt hjá Gunnari Helga Kristinssyni prófessor að stjórnvöld efndu til „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu“ um stjórnarskrártillögur „stjórnlagaráðs“, til þess að koma í veg fyrir efnislega umræðu um tillögurnar. Aðrir en þeir sem sátu í „stjórnlagaráði“ eru ekki fáanlegir til að mæla efnislega með tillögunum og þess vegna hamra stjórnarliðar á því að „þjóðin“ vilji fá tillögurnar samþykktar og því eigi alþingi að drífa sig í að samþykkja tillögurnar. Fylgja verður „þjóðarviljanum“ í málinu, var í gær haft eftir Steingrími J. Sigfússyni á forsíðu Morgunblaðsins.

En hver er „þjóðarviljinn“ í málinu? Er hann ekki sá að mikill meirihluti landsmanna hefur ekki fengist til að lýsa stuðningi við bramboltið? Tveir af hverjum þremur sátu heima þegar kosið var til stjórnlagaþings – í kosningu sem síðar kom í ljós að var ómarktæk. Aðeins um þriðjungur atkvæðisbærra manna lýsti stuðningi við tillögur „stjórnlagaráðs“ þrátt fyrir ákafa baráttu stuðningsmanna tillagnanna. Kjósendur hafa fengið tvö raunveruleg tækifæri til að lýsa stuðningi sínum við málið og „ferlið“. Í bæði skiptin reyndist einungis þriðjungur manna fáanlegur til þess. Það um það bil núverandi fylgi stjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar. Stjórnarskrárbröltið er trúaratriði þessara hópa.

Í Morgunblaðunu í morgun segir Sigurður Líndal prófessor að það sé „algjörlega rangt að þjóðarvilji hafi birst í málinu. Þetta er litill minnihluti atkvæðisbærra manna. Hvernig í ósköpunum getur kosningin birt þjóðarvilja þegar helmingur kjósenda lætur hana lönd og leið?“ spyr prófessor Sigurður og bætir við: „Ég sé ekki að þjóðarviljinn hafi birst í atkvæðagreiðslunni 20. október síðastliðinn. Hann birtist í stjórnarskránni árið 1944. Hún var samþykkt með nær öllum greiddum atkvæðum. Ég er ekki þar með að segja að hér þurfi „rússneska kosningu“ til, en það þarf að minnsta kosti ríflegan meirihluta kjósenda.“