Vefþjóðviljinn 366. tbl. 16. árg.
Á R A M Ó T A Ú T G Á F A
Þó árið 2012 verði brátt liðið í aldanna skaut og komi aldrei til baka, eru nokkur atriði sem óþarft er að fari sömu leið. Þar á meðal eru þessi.
Jafnaðarráðherra ársins: Guðbjartur Zoéga ákvað að hækka laun forstjóra Landspítalans, en einskis annars starfsmanns.
Álegg ársins: Pepperoni, extra ostur og app.
Umhverfisvænst á árinu: Spilliefnið sparpera.
Pírati ársins: Úlfar Þormóðsson skrifaði innblásna grein á vefrit vinstrigrænna um að höfundarréttur væri mikið böl. „Hugmyndir liggja í loftinu og eru til sameiginlegs brúks. Þær verða ekki að einkaeign þó að þeim ljósti niður í einhvern einn því að þær eiga enga leið að manninum nema í gegn um skilningarvit hans”, sagði Úlfar.
Rétthafi ársins: Á sama tíma sendi Úlfar frá sér nýja skáldsögu, Boxarann. Í henni er tekið fram að allur réttur sé áskilinn og enginn megi afrita einn einasta staf án leyfis höfundar, Úlfars Þormóðssonar.
Einkaréttur ársins: Höfundaréttur Úlfars Þormóðssonar. Aðrir þurfa ekki höfundarétt.
Veðurfréttahlustandi ársins: Ögmundur Jónasson.
Einkakennsla ársins: Haraldur Ólafsson veðurfræðingur hélt sérstaka veðurfræðikennslustund í sjónvarpssal, ætlaða Ögmundi Jónassyni einum.
Persónukjör ársins: Frambjóðendur Bjartrar framtíðar eru valdir persónulega af forystu flokksins. Flokkurinn segist sérstaklega berjast fyrir auknu lýðræði, meira gegnsæi og minna forysturæði.
Heildræningi ársins: Ólína Þorvarðardóttir lagði til að „heildrænar meðferðir græðara“ yrðu niðurgreiddar „til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu“.
Pönkari ársins: Margrét Tryggvadóttir segir að hún og aðrir þingmenn Hreyfingarinnar séu „atvinnupönkarar“. Sem slíkum fannst henni skelfilegt að stjórnarandstaðan hefði með ræðuhöldum tafið í tvo daga að mælt yrði fyrir „tekjuhluta fjárlaga“ og skattamálum „komið til nefndar og umsagna.“ Svona eiga pönkarar að vera.
Baráttujaxlar ársins: Stjórnarandstaðan á þingi hefur enn sem komið er engum árangri náð sem nokkru máli skiptir. Í tæp fjögur ár hefur hún alltaf lagt niður vopnin, eftir örfárra daga baráttu, án þess að fá nokkuð í staðinn.
Stimpill ársins: Jóhanna Sigurðardóttir fól lögfræðingahópi að gera tæknilega úttekt, en ekki efnislega, á tillögum „stjórnlagaráðs“ að nýrri stjórnarskrá. Þegar niðurstaðan lá fyrir, með 75 breytingatillögum, sagði Jóhanna að kominn væri „lögfræðilegur gæðastimpill“ á tillögurnar. Og hafði starfshópnum þó ekki verið leyft að gera efnislega úttekt á tillögunum.
Brúarsmiður ársins: Sighvatur Björgvinsson tók að sér að brúa kynslóðabilið.
Baráttuandablásari ársins: Íslenska knattspyrnulandsliðið hafði áhyggjur af því að mótherjar þess frá Albaníu kæmu ekki nægilega baráttuglaðir til leiks. Fyrirliðinn fór því í viðtal og sagði að Albanir væru allir glæpamenn og þjófar.
Þjóðarstuðningur ársins: Þrátt fyrir mikla kynningu, áskoranir ráðamanna og ákafa eftirfylgni Ríkisútvarpsins, tókst valdhöfum ekki að fá meira en þriðjung kosningabærra manna til að lýsa yfir stuðningi við stjórnarskrártillögu „stjórnlagaráðs“ í „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu“. Málið hlýtur því að vera úr sögunni, þó jóhönnurnar muni kippast í málinu fram að þingrofi í vor.
Stuðningur ársins: Samkvæmt könnunum eru það aðeins um 70% landsmanna sem treysta fréttastofu Ríkisútvarpsins. 100% þeirra mun þó gert að fjármagna hana.
Efnisvarnir ársins: Það segir meira en mörg orð um málstað Ríkisútvarpsins hverju sinni, að þegar stofnunin er gagnrýnd fyrir hlutdrægni í fréttum og þáttum þá svara yfirmenn hennar jafnan með því að stofnunin njóti mikils trausts. Efnislegar varnir heyrast sjaldan eða aldrei.
Flokksbarátta ársins: Einn stjórnmálaflokkanna lagði milljónir króna af ríkisframlagi sínu í baráttu fyrir „ráðgefandi kosningu“ um stjórnarskrártillögur „stjórnlagaráðs“. Ríkisútvarpið hafði engan áhuga á því máli, enda var um Hreyfinguna að ræða og hún barðist fyrir samþykkt tillagnanna.
Hrokaleysi ársins: Hópur leikara og annarra frægðarmenna gerði myndband þar sem látið var eins og þeir sem ekki mættu á kjörstað og kysu með nýrri stjórnarskrá væru heilaleysingjar sem ekki hefðu áhuga á öðru en því að fá sér ís og fara í Kringluna.
Málflutningur ársins: Guðmundur Andri Thorsson fullyrti í grein í Fréttablaðinu að ef Sjálfstæðisflokkurinn kæmist til valda á Íslandi þá yrðu fóstureyðingar undantekningarlaust bannaðar og hjónabönd fólks af sama kyni einnig.
Femínistar ársins: Ungir vinstrigrænir samþykktu ályktun þar sem lögð var áhersla á að bygging mosku í Reykjavík gengi sem best og hraðast.
Verkalýðsleiðtogi ársins: Már Guðmundsson hvikar hvergi í baráttu sinni fyrir stórbættum launum seðlabankastjóra.
Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.
Umburðarlyndi ársins: Fólk var drepið, hús brennd og sendiráð jöfnuð við jörðu víða í arabaheiminum, til að mótmæla kvikmynd sem sýndi spámann heimamanna í neikvæðu ljósi.
Sökudólgar ársins: Fréttastofa Ríkisútvarpsins var ekki lengi að finna sökudólginn í málinu. Það var auðvitað leikstjóri myndarinnar. Hann fjármagnaði myndina víst með umdeilanlegum hætti.
Hugsanasjálfstæði ársins: Í íslenskri skoðanakönnun sögðust 98% svarenda kjósa Barack Obama ef þeir fengju að kjósa í bandarísku forsetakosningunum.
Jafnréttislagabrotaáhugi ársins: Ríkissjónvarpið sagði sjö sinnum frá því að Ögmundur Jónasson hefði brotið jafnréttislög. Til samanburðar sagði Ríkissjónvarpið aldrei frá því árið áður, þegar Jóhanna Sigurðardóttir ráðherra jafnréttismála, braut jafnréttislögin. En hún er að vísu úr Samfylkingunni.
Þöggun ársins: Julian Assange kærði breska sjónvarpsstöð fyrir að sýna af sér mynd þar sem hann dansaði á skemmtistað. Stofnandi Wikileaks taldi þetta brot gegn einkalífi sínu.
Markaðsfrelsi ársins: Til landsins kom höfundur bókarinnar 23 atriða um kapitalisma sem ekki er sagt frá. Hann var þegar fenginn í gagnrýnislausT einkaviðtal í Ríkissjónvarpið, þar sem stjórnandi þáttarins sagði í fullri alvöru að þrælahald og barnaþrælkun væru „ákveðin gerð frjáls markaðar“. Bókarhöfundurinn tók heilshugar undir.
Röksemd ársins: Ríkisútvarpið sagði fyrst nokkrar fréttir af því hve mikil fyrirhöfn og hversu gamalsdags sá siður væri að einn handhafa forsetavalds fylgdi forseta Íslands á flugvöll, þegar forseti færi í opinbera heimsókn til útlanda. Því næst sagði fréttastofa Ríkisútvarpsins frá því í sérstakri frétt að þetta myndi breytast ef ný stjórnarskrá yrði samþykkt.
Verðskuldun ársins: Nýr utanríkisráðherra Frakklands, sósíalistinn Laurent Fabius, sagði að Assad forseti Sýrlands ætti ekki skilið að lifa. Engum virtist finnast neitt athugavert við þetta og enginn hefur rifjað það upp síðan. Ætli sama þögnin hefði ríkt um slík ummæli ef þau hefðu komið frá bandarískum repúblikana en ekki evrópskum vinstrimanni?
Fréttamat ársins: Forseti Íslands bar fréttastofu Ríkisútvarpið þungum sökum opinberlega og sakaði starfsmenn hennar um að misnota aðstöðu sína í pólitískum tilgangi. Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði aldrei frá því. Þeir sem fá allar sínar fréttir úr Efstaleiti hafa aldrei heyrt af málinu.
Margramannamaki ársins: Steingrímur J. Sigfússon hefur á árinu verið iðnaðarráðherra, sjávarútvegsráðherra, landbúnaðarráðherra, efnahagsráðherra, viðskiptaráðherra, atvinnuvegaráðherra, nýsköpunarráðherra og staðgengill forsætisráðherra. Ætli forystumenn annarra flokka hefðu verið sagðir valdaþyrstir, ef þeir hefðu sankað að sér ráðuneytum með þessum hætti?
Barn ársins: Ásdís Olsen aðjúnkt sagðist hafa lent „í Rússagrýlunni“. Tollverðir í Moskvu voru eitthvað leiðinlegir við hana. Kennari við Háskóla Íslands hafði með öðrum orðum ekki hugmynd um hvað hugtakið Rússagrýla merkir.
Úrræði ársins: Þeir sem létu byggja fyrir sig dýrasta hús landsins, útrásarhöllina Hörpu, urðu mjög reiðir þegar fasteignagjöldin af húsinu urðu há. Þeir sögðu að þar kæmu aðeins þrjár lausnir til greina: höllin fengi rekstrarstyrk til að mæta fasteignagjöldunum, að ríkið tæki reksturinn yfir, að lögum um fasteignagjöld yrði breytt. – Auðvitað kom ekki til greina að auka tekjurnar, því ekki mega gestirnir borga meira fyrir tónleikana. Og ekki má hækka leiguna á sölunum eða skera niður í rekstrinum, nei skattgreiðendur eiga bara að borga meira.
Allskonar ársins: Þegar ráðuneyti sveitarstjórnarmála úrskurðaði að Reykjavíkurborg hefði ekki farið að lögum við meðferð umsóknar skemmtistaðar um áframhaldandi starfsleyfi krafðist Jón Gnarr þess að borgaryfirvöld fengju að ráða því hvaða starfsemi væri rekin í borginni og hvar. Undir stjórn Besta flokksins eru borgaryfirvöld mjög umburðarlynd, en bara gagnvart því sem þeim líkar. Hitt umbera þau ekki.
Stjórnarmaður ársins: Samkvæmt upplýsingum fyrirtækjaskrár sat Kristján Möller í stjórn Vaðlaheiðarganga ehf. á sama tíma og hann greiddi á þingi atkvæði með lánveitingu til félagsins.
Sigur ársins: Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hélt blaðamannafund í júní og sagðist þar tilkynna um mikinn sigur. Spánn hefði sótt um neyðarlán til Evrópusambandsins. Það sýndi styrk evrusvæðisins að skattgreiðendur þess hefðu nú fengið Spán á framfæri sitt, með Grikkjum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins á Íslandi tók undir og sagði að málið sýndi styrk evrunnar.
Starfsmaður ársins: Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi Besta flokksins þáði utanlandsferð í boði flugfélags. Slíkt er borgarfulltrúum óheimilt samkvæmt siðareglum Reykjavíkurborgar. Einar Örn sagðist engar reglur hafa brotið, því hann hefði sko þegið ferðina sem prívatpersóna.
Vinslit árisns: Jafnvel ASÍ telur sig ekki lengur hafa neitt við ríkisstjórnina að tala. Jafnskjótt byrjuðu Samfylkingarmenn að tala illa um Gylfa Arnbjörnsson. Gylfi á þó enn talsvert í land til að ná sess Ólafs Ragnars Grímssonar í huga Samfylkingarmanna.
Mótmælaáhugi ársins: Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur lengi haft mikinn áhuga á mótmælafundum og auglýst þá vandlega í fréttatímum, áður en þeir eru haldnir. Á þessu varð skyndileg undantekning þegar ólíkir aðilar í sjávarútvegi boðuðu til útifundar til að mótmæla árásum stjórnvalda á sjávarútveginn. Fréttastofa Ríkisútvarpsins hafði engan áhuga á því.
Fundarboð ársins: Nokkrir menn boðuðu fund til að mótmæla mótmælafundinum sem aðrir höfðu boðað til. Og þá vaknaði fréttastofa Ríkisútvarpsins. Í upphafi fréttatíma Ríkisútvarpsins sagði svo: „Rúmlega 900 manns hafa boðað komu sína á Austurvöll og rúmlega 400 segjast kannski ætla að mæta þangað, nú þegar útgerðarmenn hafa blásið til fundar. Fólkið hefur skráð sig á fésbókarsíðu sem ber heitið „Þetta er auðlindin okkar“, og vill mótmæla LÍU.“ – Nú voru mótmæli aftur orðin fréttnæm í Efstaleiti.
Smækkunarstjóri ársins: Össur Skarphéðinsson vinnur hörðum höndum að stækkun Evrópusambandsins.
Pallborð ársins: Háskólarnir í landinu efndu til sameiginlegrar fundaraðar um stjórnarskrártillögur „stjórnlagaráðs“, þar sem helstu fræðimenn skólanna á sviði lögfræði og stjórnmálafræði fóru yfir tillögurnar. Gísli Tryggvason umboðsmaður neytenda og „fulltrúi í stjórnlagaráði“ taldi fundina gagnslausa þar sem enginn fulltrúi úr „stjórnlagaráði“ hefði verið í pallborði til að útskýra tillögurnar.
Nauðsyn ársins: Brýnasta nauðsyn landsmanna er að fá sem stjórnarskrá framtíðarinnar, texta sem er slík speki að helstu fræðimenn landsins geta ekki skilið hann rétt nema að hafa Gísla Tryggvason sér til halds og trausts.
Founding-fathers ársins: Eiríkur Bergmann Einarsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Gísli Tryggvason, Pétur á Útvarpi Sögu og þeir hinir, eru auðvitað réttu mennirnir til að semja æðstu lög Íslands, sem öll önnur lög landsmanna, í nútíð, fortíð og framtíð, víkja fyrir.
Framfaraskref ársins: Happdrættisstofa er óneitanlega mjög brýn.
Lysander Spooner ársins: Ársæll Valfells hóf samkeppni við ríkispóstinn.
Klukka ársins: Ekki má Einar gleymast. Nógu ósanngjarnt er að Ingþór sé hvergi nefndur.
Líkamsræktarfrömuður ársins: Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi vinstrigrænna vildi meina fólki að stunda Boot-Camp æfingar í ónotuðu húsnæði við Rafstöðvarveg, af því að æfingarnar minntu á hermennsku. Sjálf starfar hún innan vinstrigrænna, en þeir sitja einmitt í ríkisstjórn sem ekki beitti neitunarvaldi Íslands gegn loftárásum NATO á Líbýu.
Kjöldráttur ársins: Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Árna Páls Árnasonar, sagðist hafa veri ð kjöldregin í Samfylkingunni fyrir að tala opinberlega gegn ákæru á hendur Geir Haarde. Engum fjölmiðli eða álitsgjafa fannst það merkilegt eða til marks um skoðanakúgun eða ógnarstjórn í Samfylkingunni. Hvernig ætli þeir hefðu látið ef annar flokkur hefði átt í hlut?
Staðfesta ársins: Guðmundur Steingrímsson sagðist auðvitað vera alveg á móti því að alþingi ákærði Geir Haarde. En hann sagðist hins vegar greiða atkvæði gegn afturköllun ákærunnar, því hann væri „almennt á móti því að við ástundum hringlandahátt.“ Enda er hann á örfáum árum búinn að vera varaþingmaður Samfylkingarinnar, þingmaður Framsóknarflokksins, þingmaður utan flokka og formaður Bjartrar framtíðar.
Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.