Þriðjudagur 1. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 1. tbl. 17. árg.

Það var óttaleg ógæfa að eftir hrun bankanna tækju við völdum í landinu svo heiftúðugir og hefnigjarnir einstaklingar sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Þau hafa aldrei náð að hrista af sér biturðina yfir því að hafa lengi einvörðungu verið treyst fyrir þó mikilvægu hlutverki stjórnarandstöðuþingmanna.

Jafnvel þótt Jóhanna hafi nú ákveðið að hverfa af vettvangi getur hún engan veginn stillt sig um að steyta hnefann í átt að andstæðingum sínum. Þetta er áberandi í áramótagrein hennar í Morgunblaðinu í gær. 

Þar segir hún meðal annars:

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór frá völdum hafði ójöfnuður og stéttaskipting í samfélaginu aukist til muna enda gekk þeirra pólitíska stefna út á það leynt og ljóst.

Í fullri alvöru, ætli hafi nokkru sinni verið til stjórnmálaflokkur sem hafi stefnt að því, jafnvel leynt, að auka ójöfnuð og stéttaskiptingu? Ætli á annað þúsund manns hvarvetna af landinu komi reglulega saman á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og leggi á ráðin um ójöfnuð og stéttskiptingu? Væntanlega eftir að hafa nýlokið við samþykkt um að banna fóstureyðingar og hjónaband samkynhneigðra, eins og Guðmundur Andri Thorsson lýsti því.

Það þarf alveg einbeitta ósanngirni til að halda svona löguðu fram. Hvað þá sem forsætisráðherra á almennum hátíðisdegi í landinu.

Annað dæmi um hug Jóhönnu má nefna:

Á síðasta heila ári Sjálfstæðisflokksins við völd varð 216 milljarðar króna halli á ríkissjóði en á næsta ári verður hallinn tæpir fjórir milljarðar.

Hér á Jóhanna væntanlega við árið 2008. En fjárlög fyrir það ár voru ekki aðeins sett saman og samþykkt af Samfylkingunni heldur einnig fylgt eftir í ríkisstjórn enda settist flokkurinn í stjórn vorið 2007. Hvað ætli nýjar útgjaldakröfur Samfylkingarinnar við gerð fjárlaga fyrir árið 2008 skýri stóran hluta af þessum halla?