Helgarsprokið 30. desember 2012

Vefþjóðviljinn 365. tbl. 16. árg.

Úlfar Þormóðsson telur allan einkaeignarrétt glórulausan nema höfundarrétt að Boxaranum eftir Úlfar Þormóðsson.
Úlfar Þormóðsson telur allan einkaeignarrétt glórulausan nema höfundarrétt að Boxaranum eftir Úlfar Þormóðsson.

Snemma í síðasta mánuði var haldinn stofnfundur svokallaðs Pírataflokks á Íslandi, en flokkurinn berst fyrir því að menn megi taka ókeypis það efni sem aðrir hafa skapað og nú er varið af höfundarétti. Meðal flokksmanna og væntanlegur frambjóðandi til Alþingis er Birgitta Jónsdóttir alþingismaður.

Sama dag og flokkurinn var stofnaður kom erlendur baráttumaður gegn höfundarétti, Richard Stallman að nafni, í einkaviðtal í sjónvarpsþættinum Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu. 

Einn vinstrisinnaðasti vinstrimaður landsins, Úlfar Þormóðsson rithöfundur, varð mjög glaður og ákafur að heyra sjónarmið Stallmans í þættinum. Úlfar er á móti einstaklingsfrelsi en vill veg ríkisins sem mestan. Það er þess vegna skiljanlegt að hann vilji ekki að einstaklingar njóti sköpunargáfu sinnar, heldur verði hún strax að sameign allra, eins og önnur verðmæti.

Í pistli á vefmiðli í eigu vinstrigrænna, Smugunni, spurði Úlfar:

Sjálfum fannst mér einnig merkilegt að hlusta á það sem Richard Stallman hafði að segja um einkaréttinn í sama Silfri, en Stallman var kynntur til sögunnar sem talsmaður frjáls hugbúnaðar í heiminum. Orð hans staðfestu fyrir mér að sömu hugmynd lýstur einn í dag og annan á morgun þótt að á milli þeirra séu mörg hundruð mílur og án þess að þeir viti hver af öðrum. Það vill svo til að ég hef verið að velta fyrir mér að undanförnu hversu óþarfur, eða réttara sagt, hversu mikill dragbítur einkarétturinn er á frelsið og velferðina. Ég var svo sem ekki kominn mikið lengra í þankanum en að leggja fyrir mig spurningar líkar þessum: Er eitthver glóra í því að einstaklingur eða risafyrirtæki hafi einkarétt á því að framleiða lyf sem bjarga lífi, veiða fisk eða sauma föt í ákveðnu sniði? Er eitthvert vit í því að sá sem fyndi ráð til þess að eyða krabbameini á byrjunarstigi ætti þaðan í frá einkarétt á hugmyndinni? Erum við ekki saman í þessu?

Hugmyndir liggja í loftinu og eru til sameiginlegs brúks. Þær verða ekki að einkaeign þó að þeim ljósti niður í einhvern einn því að þær eiga enga leið að manninum nema í gegn um skilningarvit hans. 

Einhverjum finnst það ef til vill öfugmæli að segja að ljósið skíni skærast í myrkrinu. En þannig er það samt. Það er því við hæfi að í vaxandi skammdegi skuli þjóðinni vera bent á nýjar lýðræðisbrautir og voðann af einkarétti. 

Úlfar Þormóðsson er með öðrum orðum alveg á móti höfundarétti. Honum finnst „engin glóra“ í honum.

Á dögunum kom út ný og vel skrifuð skáldsaga, Boxarinn. Höfundur hefur lagt í töluverða vinnu við hana og vill því skiljanlega ekki að aðrir geti fjölfaldað eintök af henni án þess að greiða fyrir. Þess vegna er greinilega tekið fram í bókinni að enginn megi afrita bókina, án leyfis höfundar… Úlfars Þormóðssonar.

Það er alltaf saman „glóran“ í vinstrimönnunum.