Mánudagur 24. desember 2012

Vefþjóðviljinn 359. tbl. 16. árg.

Í dag er aðfangadagur jóla og önnur helgasta hátíð langfjölmennustu trúarbragða heims gengur því senn í garð. Milljónum og aftur milljónum manna um allan finnst sem nú verði glatt í jafnvel döprustu hjörtum. En þó fleiri játi kristindóm en nokkur önnur trúarbrögð þá eru þeir auðvitað líka margir sem láta sér fátt um hann finnast og eru með öllu ósnertir af öllu hans hátíðahaldi. 

Hátíð eins og jól, sem fagnað er um víða veröld, minnir í senn á það hversu fólk, í ólíkum heimshlutum við gerólík skilyrði, getur verið líkt, og hversu fólk, af svipuðum uppruna og við líkar aðstæður, getur verið ólíkt. Um jól hugsar kristinn Íslendingur líklega um sömu hluti og með svipaðri tilfinningu og bláfátækur trúbróðir hans gerir í myrkviðum Afríku, en á um þessi sömu atriði ekkert sameiginlegt með manninum í næsta húsi, sem grillar oft með honum að sumarlagi og tryllist með honum í hvert sinn sem íslenska handboltalandsliðið spilar. Fólk getur í senn verið svo merkilega líkt og einstaklega ólíkt.

Og þegar menn leiða hugann að gerólíku gildismati fólks, sem þó á svo margt annað sameiginlegt, þá fara menn fljótt að hugsa um mikilvægi þess að hver og einn fái að vera á sem mestan hátt sjálfráða um eigið líf. Menn hafa ekki aðeins ólíka afstöðu til trúmála, heldur svo ótal margra annarra hluta í lífinu, stórra og smárra. Og hver telur sig þess maklega umkominn að kveða upp úr með það hvað sé „rétt“ og „rangt“ í því? Er „rangt“ að borða „óhollan“ mat? Er „rétt“ að reyna að tryggja sér fleiri lífdaga með meinlætalifnaði sem er leiðinlegur? Er „rangt“ að borða sykraðar matvörur, gleðja bragðlaukana og skemma tennurnar? Er „rangt“ að taka lán á risavöxtum með svíðingslegum kjörum, en eignast draumabílinn? Er eitthvað af þessu svo rétt eða svo rangt, að beturvitar megi bindast samtökum um að knýja menn til „réttra“ lífshátta eða fæla þá frá „röngum“? 

 Og ef menn svara þeirri spurningu neitandi, vilja þeir þá ekki taka þátt í baráttunni gegn samfelldri útþenslu barnfóstruríkisins og stjórnmálamönnum sem vilja skipuleggja líf annarra?

Nóg um þetta að sinni. Nú ganga jól í garð. Því fagni gjörvöll Adams ætt.