Helgarsprokið 23. desember 2012

Vefþjóðviljinn 358. tbl. 16. árg.

Eftir að bankarnir fóru í þrot haustið 2008 hófust miklir svardagar. Stjórnsýslan í landinu hlyti að bera mikla ábyrgð á þroti þessara einkafyrirtækja, svo nú yrði að bæta stjórnsýsluna. Vinna faglegar. Halda betri fundargerðir. Stjórnmálamenn yrðu að ráða sem minnstu af miklu hlutverki ríkisins. Fagmenn mestu. Stjórnmálamenn mættu ekki deila, því fólk bæri svo litla virðingu fyrir alþingi. Stjórnmál ættu að vera samvinnuverkefni þar sem menn ynnu faglega en „körpuðu“ ekki. Einnig ætti að minnka völd ráðherra og framkvæmdavaldsins en auka áhrif þingmanna. En einnig mætti þingið ekki draga það að afgreiða frumvörp ráðherranna því það væri málþóf og minnkaði virðingu alþingis.

Róttæku múslimarnir sem náðu völdum í Egyptalandi á dögunum eru ekki þeir einu sem rjúka til og reyna að breyta stjórnarskránni eins fljótt og þeir geta, áður en fólk nær áttum. Á Íslandi var einnig hlaupið til. Hér var búið til hugtakið „gamla Ísland“, sem núverandi ráðamönnum og mörgum álitsgjöfum virðist hafa þótt mjög vont land. Allt sem þessi öfl hatast við, skal kennt við „gamla Ísland“, og þeir sem ekki deila með þeim hatrinu, þeir eru sagðir stuðningsmenn „gamla Íslands“. Eða sagðir vilja „snúa aftur til spýjunnar“, eins og prestur einn kallaði það í Fréttablaðsgrein á dögunum.

Þessir íslensku róttæklingar, ráðamenn í Bræðralagi róttækninnar á Íslandi, eru sérstaklega á móti stjórnarskrá lýðveldisins. Ekki af því að hún hafi reynst illa, heldur vegna þess að afnám hennar á að vera lokatáknið um sigur þeirra. Það á að vera tákn um að loksins sé langri ósigurgöngu þeirra lokið og nú eigi þeir landið með manni og mús. Þess vegna vilja þeir henda stjórnarskránni út í hafsauga og setja í staðinn langa moðsuðu margra helstu gapara landsins. 

Það merkilega er, að margir þeirra sem hæst töluðu um vandaðari vinnubrögð og fagmennsku, að ógleymdri samstöðunni og afnámi karpsins, þeir eru einmitt meðal helstu stuðningsmanna nýrrar stjórnarskrár. 

En hvernig hefur verið staðið að atlögunni að stjórnarskránni?

Haldinn var dagsfundur í Laugardalshöllinni þar sem hundrað tíumanna hópar sátu við borð og skrifuðu niður stikkorð. Gunnar Helgi Kristinsson prófessor hefur lýst fundinum sem límmiðum uppi á vegg. Þessi samkoma er svo kölluð þjóðfundur, þó enginn fundur hafi verið fjölmennari en tíumanna fundur. Og á hverju borði sat svo sérstakur fulltrúi skipuleggjenda og hélt fundarmönnum við efni skynseminnar. 

Næst var kosið til stjórnlagaþings. Þátttaka var sáralítil. Tveir af hverjum þremur landsmönnum mættu ekki einu sinni á kjörstað. Þau atkvæði sem þó bárust munu hafa dreifst mjög verulega og fáir sem fengu nokkurt fylgi að ráði, samkvæmt opinberum tölum. 

Síðar kom upp úr dúrnum að verulegir gallar voru á framkvæmd kosningarinnar. Og þeir voru ekkert smáræði eða „lagatækni“ eins og stuðningsmenn stjórnarskrárbreytinginnar reyndu að kalla þá. Á 10-15% seðla þurftu teljarar til dæmis að reyna á getspeki sína til að gera kjörseðilinn gildan. Í skýrslu yfirkjörstjórnarmanns um framkvæmdina kom fram að kjörstjórnarmenn hefðu stundað „skapandi úrlestur“ við að koma merkingu í kjörseðlana sem þeim var ætlað að telja. Og gegn lögum fór þessi talning fram fyrir luktum dyrum án þess að frambjóðendum væri heimilað að hafa þar fulltrúa viðstadda. Hæstiréttur landsins gat ekki annað en ógilt kosninguna, enda var alveg óljóst hverjir hefðu í raum fengið flest atkvæði ef rétt hefði verið staðið að málum.

Og hvað gerðu stjórnvöld hinna nýju tíma og nýju vinnubragða þá? Nú þau gerðu einfaldlega ekkert með niðurstöðu Hæstaréttar. Þau bara breyttu um nafn á stjórnlagaþinginu og kölluðu það stjórnlagaráð. Og með minnihluta atkvæða á þingi völdu stjórnvöld alla 25 fulltrúana í þetta „stjórnlagaráð“. Hvenær hefur það gerst að alþingi kjósi 25 manna nefnd og stjórnvöld fái að tilnefna alla 25? Aldrei nema í þetta sinn.

Og hvað gerðu lýðræðisumbótamennirnir 25? Allir nema einn settust strax í ráðið, sem ráðamenn einir höfðu valið.  

Svo er eftir marga mánuði skilað langloku sem allir fræðimenn sem um hafa fjallað virðast sammála um að sé ónothæf sem stjórnarskrá. Þingmenn stjórnarflokkanna ræða tillögurnar aldrei efnislega heldur efna til „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu“ um óræddar tillögurnar. Niðurstaðan er sú að einungis þriðjungur landsmanna er fáanlegur á kjörstað til að styðja atlöguna að stjórnarskránni, þrátt fyrir mikla kynningu stjórnvalda og Ríkisútvarpsins, en nær enga skipulagða andstöðu við tillögurnar.

Æstustu stjórnarliðar á þingi telja augljóst að þessar tillögur, sem stofnað er til með þessum hætti, verði að ná í gegn sem ný stjórnarskrá fyrir landið. Sömu menn höfðu áður talað sig hása um nauðsyn bættra vinnubragða, meiri fagmennsku og minni eftirgjafar þingsins við stjórnarherrana.

Tillögur „stjórnlagarráðs“ eru vitaskuld mun verri en núverandi stjórnarskrá. En jafnvel þó svo væri ekki, þá væri útilokað fyrir sæmilega þingmenn að stuðla að því á nokkurn hátt að þær yrðu gerðar að stjórnarskrá Íslands. Slíkt er auðvitað útilokað og stjórnarandstaðan hlýtur að stöðva allar slíkar tillögur með öllum löglegum leiðum.