Laugardagur 22. desember 2012

Vefþjóðviljinn 357. tbl. 16. árg.

Örn Bárður: Árið er 5 eftir Hrun og vertu með í Exódus-för íslenskrar þjóðar á leið hennar til draumalands stjórnlagaráðs.
Örn Bárður: Árið er 5 eftir Hrun og vertu með í Exódus-för íslenskrar þjóðar á leið hennar til draumalands stjórnlagaráðs.

Það eru engar ýkjur að hrun fjármálakerfisins haustið 2008 var ýmsum himnasending. Sunnudaginn fyrir mörg hundruð milljóna króna skoðanakönnunina um tillögur stjórnlagaráðs í október flutti Örn Bárður Jónsson prestur og stjórnlagaráðsfulltrúi predikun sem útvarpað var á kostnað skattgreiðenda. Hann hóf mál sitt á örlítilli útskýringu á hinu nýja tímatali: 

Við lifum spennandi tíma!

Nú er nýhafið árið 5 eftir Hrun. Við getum annarsvegar litið á Hrunið sem slys og ófögnuð en á hinn bóginn sem nýtt tækifæri, áminningu og ráðningu, hvatningu og ákall um nýsköpun og bjartari framtíð.

Árið 5 eftir hrun. Óskaplegur léttir hlýtur það að vera fyrir guðsmanninn að þurfa ekki lengur að miða dagatalið sitt við fæðingu frelsarans.

Margt fleira fróðlegt er að finna í predikun mannsins. Meðal annars þá staðreynd að það tók 116 daga að semja stjórnarskrá Bandaríkjanna og stjórnlagaráð eyddi 115 dögum í að sjóða tillögu sína saman. Það þarf vart frekari vitna við um gæðin á báða bóga.

Útvarpspredikun Arnar Bárðar lauk svo á þessu orðum: 

Og nú segi ég við þig sem til mín heyrir:

Stattu upp og stattu með réttlæti og sannleika. Vertu með í Exódus-för íslenskrar þjóðar á leið hennar til draumalandsins. Misstu ekki af lestinni, brenndu ekki af sem leikmaður í landsleiknum. Sigraðu heldur með þeim sem vilja lifa og deyja fyrir drauminn um betri tíð og bjartari.

Statt upp, sagði Jesús.

Statt upp og veldu lífið!

Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Árið er 5 eftir Hrun.