Föstudagur 21. desember 2012

Vefþjóðviljinn 356. tbl. 16. árg.

Að frátöldum Íbúðalánasjóði ríkisins og Byggðastofnun hefur engin opinber stofnun orðið jafn innilega gjaldþrota og Fæðingarorlofssjóður.

Árið 2001 var byrjað að fjármagna Fæðingarorlofssjóðinn með því að fara ránshendi um atvinnuleysistryggingasjóð, sem hafði lengi verið fjármagnaður var með tryggingagjaldi á launagreiðslur fyrirtækja. Sú ránsferð kom sér aldeilis vel eftir hrun fjármálakerfisins þegar nær 10% vinnufærra manna voru skyndilega atvinnulausar. Þá kom í ljós að stórum hluta bótasjóðs atvinnulausra hafði verið sólundað í bætur til hátekjumanna í fæðingarorlofi. 

Allar verstu hrakspár um Fæðingarorlofssjóðinn hafa ræst. Útgjöld hans reyndust miklu meiri en aðstandendur hans sóru og sárt við lögðu. Hvað eftir annað hefur hann stefnt í þrot og verið bjargað af almennum skattgreiðendum og síðar þaki á „rétt“ til bóta úr sjóðnum. 

Þjóðfélagsverkfræðingarnir sem stóðu að sjóðnum fullyrtu að með sjóðnum myndi svonefndum launamun kynjanna verða útrýmt. Nýjustu mælingar þessara snillinga benda til að „launamunurinn“ sé algerlega óbreyttur frá árinu 2000.

Þjóðfélagshönnuðirnir töldu sig vera að jafna rétt til fæðingarorlofs þegar staðreyndin er sú að á hátindi hönnunarinnar þáði bankastjóri útrásarfélags á aðra milljón á mánuði úr sjóðnum (sem þá var smekklega vistaður hjá Tryggingastofnun ríkisins) á meðan tekjulaus heimavinnandi húsmóðir fékk 50 þúsund krónur fyrir að vera heima með sínu barni. Þetta var kallað af „jafna rétt“.

Það mun ýmis gullspænir verða í sögubókum um árin fyrir hrun fjármálakerfisins. Og kannski þess verði getið að Einar Oddur Kristjánsson var eini þingamaður Íslendinga sem studdi ekki að forstjórar fengju milljónir á mánuði frá Tryggingastofnun á meðan lágtekjufólk fengi tíuþúsundkalla, undir yfirskyninu „mikilvægt jafnréttismál“.