Fimmtudagur 20. desember 2012

Vefþjóðviljinn 355. tbl. 16. árg.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis á Facebook að hún hafi fengið ábendingu um að klæðast ekki lopapeysu við þingstörf. Í samtali við Vísi vegna málsins upplýsti ráðherrann svo að þetta hafi verið „ægilega hugguleg peysa með vestfirsku lopapeysumunstri.“

Það er virkilega gaman að því hve vinstri grænir leggja mikið upp úr klæðnaði við stjórnmálastörf.

Eins og Vefþjóðviljinn sagði frá um árið lögðu vinstrigrænir mikið upp úr því að vera ekki einn af „foringja- eða persónudýrkunarflokkunum“. Vinstrigrænir sögðust fyrst og síðast leggja áherslu á málefnin en alls ekki auglýsingaskrum, umbúðir og leiðtogadýrkun. Til að efla samstöðuna um þessa stefnu gripu forsvarsmenn vinstrigrænna til þess ráðs að sauma sérstök nærhöld með mynd af Steingrími J. Sigfússyni formanni í gervi Che Guevara. Þannig gátu þeir félagsmenn vinstrigrænna sem vildu sýna formanni sínum tilhlýðilega virðingu gert það allan daginn án þess að aðrir yrðu þess varir. Nærhöldin seldust mjög vel á kosningaskrifstofum vinstrigrænna og greinilegt að ýmsir harðir hugsjónamenn í röðum vinstrigrænna vildu hafa foringjann næst sér – á meðan þeir lögðu að sjálfsögðu mesta áherslu á málefnastöðuna.

image
image

Til að auka líkur á því að menn styrktu flokkinn brugðu VG menn svo á það ráð að setja þessa mynd af Chengrími á styrktarhnapp á vef flokksins.  

Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar alþingis hefur undirstrikað þessa ánægju með Che með því að klæðast húfu með mynd af goðinu.

Þegar Halldór Ásgrímsson flutti stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar haustið 2005 ákvað Hlynur Hallsson varaþingmaður VG að vekja sérstaka athygli á sér með því að vera öðruvísi en aðrir karlkyns þingmenn í klæðaburði og öðruvísi en hefð er fyrir. Hann gætti sín jafnframt á því að segja ekkert annað en búast mátti við af stjórnarandstæðingi. Þannig tryggði hann að málefnin fengju ekki óþarfa athygli á kostnað klæðavalsins. Þetta heppnaðist fullkomlega því enginn sýndi því áhuga sem Hlynur sagði í ræðu sinni en hvert viðtalið rak annað þar sem hann gerði grein fyrir því hvað honum þætti þessi fatasmekkur sinn þægilegur og smekklegur að öllu leyti.