Miðvikudagur 19. desember 2012

Vefþjóðviljinn 354. tbl. 16. árg.

Í nýjasta hefti Lögmannablaðsins er efnisþáttur þar sem fjórir starfandi lögmenn eru fengnir til að setja á blað örstutta hugleiðingu að eigin vali „í tilefni nýafstaðinna kosninga um tillögur stjórnlagaráðs“. Allir benda lögmennirnir á galla við tillögurnar. 

•         Sigurður Guðmundsson héraðsdómslögmaður segir að í umræðu um tillögur stjórnlagaráðs til nýrra stjórnskipunarlaga hafi sér fundist sem tillögurnar séu oftrökstuddar með því „að rægja stjórnarskrána; hún er sögð tengjast „gamla Íslandi“ og atburðirnir sem gerðust veturinn 2008, á einhvern hátt raktir til hennar eð ahenni kennt um að hafa ekki komið í veg fyrir þá.“ Sú umræða sé hins vegar á villigötum. „Í fyrsta lagi vegna þess að gildandi stjórnarskrá hefur reynst okkur vel, m.a. á þeim róstursama tíma sem verið hefur undanfarin misseri. Í öðru lagi vegna þess að ég tel að bera eigi virðingu fyrir æðstu lögum landsins. Ég tel sjálfsagt og gagnlegt að sett sé fram rökstudd gagnrýni á stjórnarskrána, en það að tala niður stjórnarskrána, til þess eins að reyna að upphefja tillögur stjórnlagaráðs, gerir engum gott.“ 

•         Dóra Sif Tynes héraðsdómslögmaður segir að í mannréttindakafla tillagna stjórnlagaráðs sé leitast við að tryggja í auknum mæli efnahagsleg og félagsleg réttindi en ákvæði af þeim toga muni sjálfsagt alltaf verða umdeild lögfræðinga á milli. Hins vegar veki furðu að stjórnlagaráð hafi talið nauðsynlegt að breyta orðalagi ákvæða er varði hin svonefndu klassísku mannréttindi sem almennt sé talin ríkja sátt um. Breytingar á framsetningu og orðalagi ákvæða séu ekki eingöngu lagatæknilegs eðlis, líkt og „í tísku“ sé að vísa til, heldur geti verið til þess fallnar að breyta efnislegu inntaki mannréttindaákvæða. Sé því „rík ástæða til að varast slíkar breytingar séu þær settar fram í þeim eina tilgangi að breyta með einhverjum hætti núgildandi mannréttindaákvæðum án þess að efnislegar forsendur liggi þar að baki sem sátt ríkir um.“ 

•         Grímur Sigurðarson héraðsdómslögmaður segir að stjórnlagaráðið fjalli um sjálfstæði dómsvaldsins í frumvarpi til stjórnskipunarlaga og segi ráðið að „það sé grundvallarforsenda í lýðræðislegu þjóðfélagi að sjálfstæðis æðstu handhafa dómsvaldsins sé gætt eins og kostur er.“ Í frumvarpinu sé ýmsum ákvæðum varðandi dómsvaldið breytt. Til dæmis sé felld á brott heimild hæstaréttardómara til að láta af embætti 65 ára án þess að missa neins af launum sínum, sem tryggð sé með 61. gr. núgildandi stjórnarskrár. Það komi á óvart að engar skýringar sé „að finna í athugasemdum á breytingunni – sem er til þess fallin að vega að sjálfstæðinu sem stjórnlagaráðið segir sjálft mikilvægt að gæta.“ 

•         Jón Sigurðsson hæstaréttarlögmaður segir að tillögur stjórnlagaráðs gangaivíða lengra en einstök ákvæði um sama efni í gildandi stjórnarskrá. Eigi þetta meðal annars við um 96. gr. tillagnanna, um skipun embættismanna, sem lýsi verkferli tengdu mati á umsækjendum í „önnur æðstu embætti“. Eðlilegra sé að eftirláta löggjafanum að móta slíkar reglur með almennri löggjöf. Grundvallarlög eins og stjórnarskrá eigi eingöngu að innihalda tiltekinn grunnramma um skipun embættismanna, svo sem gert er í 20. gr. núverandi stjórnarskrárinnar.