Þriðjudagur 18. desember 2012

Vefþjóðviljinn 353. tbl. 16. árg.

Guðbjartur vill auka stuðning við börn ríka fólksins, sem er þó mestur fyrir.
Guðbjartur vill auka stuðning við börn ríka fólksins, sem er þó mestur fyrir.

Þrátt fyrir óbrúaða hyldýpisgjá á milli tekna og gjalda ríkissjóðs og ofboðslegar skuldir hefur velferðarráðherra lagt til að svonefnt fæðingarorlof verði lengt á næstu árum og hámarksgreiðslur hækkaðar og verða 80% af launum upp að vissu marki. Með þessum breytingum munu útgjöld fæðingarorlofssjóðs fara í 8,4 milljarða á næsta ári og stappa nærri 10 milljörðum á ári þegar allt er komið á koppinn.

Ljóst er að með þessum breytingum eykst aftur munurinn á því sem foreldrar fá greitt með nýfæddum börnum sínum. Stuðningurinn frá fæðingarorlofssjóði mun vera frá 3,1 milljón króna niður í nokkur hundruð þúsund krónur. Þeir foreldrar sem eru með hæstar tekjur fá mest og hinir tekjulægstu minnst. Meðalstuðningur verður um 2 milljónir króna miðað við tæplega fimm þúsund hvítvoðunga á ári.

Vefþjóðviljinn gerir þá tillögu til Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra og verðandi formanns í flokki sem kennir sig við jöfnuð að hann gæti jafnt að velferð allra barna, og hætti að setja börn ríka fólksins í forgang. Það gæti hann til að mynda gert með því að jafna þessar greiðslur. Hverju barni gæti einfaldlega fylgt tiltekin fjárhæð. Ef hún væri 1 milljón króna væri hægt að leggja fæðingarorlofssjóð niður og spara nokkra milljarða í ríkisrekstrinum í stað þess að auka þær skuldir ríkissjóðs sem börnin eiga að taka við.

Núverandi kerfi fylgir mikil skriffinnska fyrir bæði foreldra og ríkið og nú starfa 13 manns við það eitt hjá fæðingarorlofssjóði að reikna styrkina út.

Þetta væri ágætt upphafsskref í átt að jöfnun fæðingarorlofs meðal nýbakaðra foreldra þótt takmarkið hljóti að vera að jafna árlegan rétt allra landsmanna til fæðingarorlofs.