Mánudagur 17. desember 2012

Vefþjóðviljinn 352. tbl. 16. árg.

Jólaverslun þessa árs nálgast nú hápunkt sinn. Slíkri törn fylgir oft talsverð umræða fréttamanna um rétt neytenda og hætturnar á að gráðugir kaupmenn traðki á honum.

Þetta árið hefur talsvert verið fjallað um gjafakort. Í jólapakka margra mun leynast gjafakort og fréttamenn hafa komist á snoðir um að þar er margt að varast og ekki nægilega miklar reglur. Hinir gráðugu kaupmenn setja nefnilega oft skilyrði um að nýta verði kortið innan ákveðins tíma, til dæmis árs, annars falli það úr gildi. Margir muni ekki standa í því og kortin falli því úr gildi og kaupmaðurinn græði. Þarna þurfi reglur. Lengja frestina eða jafnvel banna þá alveg. Fréttamenn hafa sagt frá því að slíkt frumvarp hafi verið lagt fram í Bandaríkjunum. Sérfræðingar um neytendarétt eru tíðir gestir í fjölmiðlum og hafa ýmsar áhyggjur af neytendum.

Hér er hins vegar enn eitt dæmið um löngun margra til barnfóstruvæðingar landsins. Neytendur eru margir en kaupmenn í þeim samanburði fáir, og neytendaréttur hefur verið í „mikilli þróun“ víða um heim, einkum í Evrópu. En mjög margt í honum er í raun ekki annað en það að ríkið skiptir sér af því sem ættu að vera frjálsir samningar. Annar samningsaðilinn fær krumlu ríkisins með sér að samningaborðinu, í krafti þess að hann ræður yfir fleiri atkvæðum en hinn samningsaðilinn.

En hvers vegna má fólk ekki vera frjálst að samningum sínum? Ef Simmi sölumaður býður til sölu gjafakort sem rennur út á fimmta fulla tungli frá kaupum, hvers vegna má Viddi viðskiptavinur ekki ákveða að ganga að því tilboði? Af því að einhverjum þingmönnum finnst þetta óhagstætt fyrir Vidda? Hvers vegna má Viddi ekki ákveða það sjálfur? Hvers vegna á að venja Vidda og alla vini hans við það að þeir þurfi ekki að bera ábyrgð á sjálfum sér? Þarf í raun mikið flóknari neytendarétt en hina gömlu reglu, „falslaus kaup skulu föst vera“?

En ein verslun verður þó ekki sökuð um að svína á neytendum. Í Bóksölu Andríkis er ekki boðið upp á gjafakort fyrir þessi jól. En ýmsar úrvals bækur sem mæla má með, hvort sem er fyrir hugsandi vini, eða þá vini sem menn hafa lengi óskað að byrjuðu loksins að hugsa.