Mánudagur 19. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 324. tbl. 16. árg.

Ástæða er til að hrósa þremur sveitarstjórnum í landinu. Í Kópavogi hefur verið lagt til að fasteignagjöld af íbúðar- og atvinnuhúsnæði, vatnsskattur og sorphirðugjöld lækki í upphafi næsta árs. Á Seltjarnarnesi og í Grindavík hefur verið ákveðið að lækka útsvar bæjarbúa svolítið á næsta ári. Útsvarið á Seltjarnarnesi verður lækkað úr 14,18% í 13,66% en lækkunin í Grindavík verður talsvert minni, úr 14,48% í 14,38%. 

Nú má auðvitað segja að lækkunin í Grindavík sé sáralítil, um 0,1%. En lækkun er þó lækkun. Eftir þetta verður Grindavík ekki lengur með hámarksútsvar, ólíkt langflestum sveitarfélögum landsins. Fyrir örfáum árum komust sjálfstæðismenn í Reykjavík til dæmis í meirihluta eftir að R-listinn hrökklaðist frá. Ekki var útsvarið þá lækkað neitt.

Það skiptir máli hverjir stjórna. Það skiptir verulegu máli að við völd séu stjórnmálamenn sem ekki finnst sjálfsagt að kreista eins mikið og þeir geta úr borgurunum, stjórnmálamenn sem hafa raunverulega sannfæringu fyrir því að fólk eigi að vera sem mest sjálfráða um eigið líf, og þar með um það hvernig það eyðir laununum sínum. Skattar í landinu verða ekki lækkaðir um neitt sem munar um, nema slíkir stjórnmálamenn fái brautargengi í kosningum.

Þeir stjórnmálamenn sem vilja lækka skatta eru gjarnan spurðir að því fyrir kosningar hvar þeir vilji „skera niður á móti“. Þessi spurning er hugsuð til þess að skapa stjórnmálamönnunum óvini í kosningunum. Skattalækkunarmaðurinn heldur að hann verði að hafa reiknað út niðurskurðartillögur, nefnir eitthvað, og þeir sem þar myndu missa spón úr aski snúast gegn honum. 

En af einhverjum ástæðum eru þeir stjórnmálamenn sem lofa útgjöldum sjaldan spurðir að því hvar þeir vilji „skera niður á móti“. 

Nútímastjórnmálamenn eyða öllu því sem þeir geta náð í. Þess vegna er afar mikilvægt að minnka innstreymið til þeirra. Um leið og skatttekjurnar minnka neyðast þeir til að fara sparlegar með þær, og mjög oft má spara verulegar fjárhæðir án þess að nokkru skipti um þá „þjónustu“ sem veitt er. Lægra skatthlutfall verður auk þess oft til að minnka áhuga fólks á undanskotum og eykur umsvif í atvinnulífinu með auknum ráðstöfunartekjum vinnandi fólks. Mikilvægt er að lækka skatta verulega, og gæta síðan sparsemi og hófs við ráðstöfun þess fjár sem í framhaldinu kemur í opinberu kassana.

Stjórnendur Kópavogs, Seltjarnarness og Grindavíkur stíga nú skref í rétta átt og eiga hrós skilið. Þó skrefin séu stutt þá eru þau í rétta átt. Og enn sem fyrr ber að hrósa stjórnendum í Skorradalshreppi og Ásahreppi. Þar mun enn lagt á lágmarksútsvar.