Helgarsprokið 18. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 323. tbl. 16. árg.

Ef að Vefþjóðviljanum skjátlast ekki þá er það að hluta til sami hópurinn sem hefur mjög stór orð um tvo afleggjara bankahrunsins. Annars vegar um hina hryllilegu hrægamma og vogunarsjóði af Wall Street sem sagðir eru helstu kröfuhafar þrotabúa bankanna. Og hins vegar um launin sem þrotabúin greiða þeim Íslendingum sem starfa fyrir þau.

Vefþjóðviljinn áttar sig ekki alveg á því hvernig þessar formælingar fara saman. Standa hrægammarnir undir nafni ef þeir greiða íslensku slitastjórnarmönnum alltof há laun? Laun sem síðar verða að fjármagnstekjum sem ríkissjóður Íslands tekur skatt af. Svona fljótt á litið virðist íslenskur slitastjórnarmaður og alls kyns innlendir verktakar sem vinna fyrir slitastjórnirnar líklegri til að nýta fjármuni úr þrotabúum bankanna á Íslandi en til að mynda hrægrammur á Wall Street.   

Annað dæmi um hvernig menn virðast tapa áttum þegar mál er  tengjast hinum föllnu bönkum eru rædd mátti heyra í Spegli Ríkisútvarpsins í sumar. Þar spurði Sigrún Davíðsdóttir fréttaritari Ríkisútvarpsins í London sérstakan saksókanara sísona hvort upptökur af einkasímtölum fólks sem sérstakur saksóknari hefði hlerað í tengslum við rannsóknir sínar á bankahruninu yrðu birtar á netinu. Menn virðast halda að allar reglur, öll helstu mannréttindi, víki þegar hið merkilega bankahrun á í hlut.

Annað dæmi má taka, umræðuþætti í Ríkissjónvarpinu sem skattgreiðendur fjármagna með nefskatti. Stofnuninni er uppálagt í lögum að gæta hlutlægni. Í pistli á dögunum fullyrti stjórnandinn að sakborningur, sem ver gjörðir sínar sem bankastjóri fyrir dómstólum um þessar mundir, hefði meðal annars gerst sekur um „hrikalega markaðsmisnotkun“,  „skollaleik með hlutabréfamarkaðinn“ og  „svikamyllur“. Nú veit Vefþjóðviljinn ekki hver verður niðurstaða dómstóla um sakarefni mannsins og það veit þáttastjórnandinn ekki heldur. Eins og menn þekkja er ekki allltaf á vísan að róa fyrir dómstólum.

Og það er aðalmálið, málið er fyrir dómstólum, það er á leið í gegnum réttarkerfið. Maðurinn þarf að verja sig gagnvart saksóknara ríkisins og alvarlegum ákærum. Það er því fullkomið smekkleysi að aðrir starfsmenn ríkisins noti aðstöðu sína til að fella dóma yfir sakborningum. Það vekur eiginlega óhug að sakborningar skuli sitja undir háðsglósum og ávirðingum starfsmanna í útvarpsstöð ríkisvaldsins á sama tíma og þeir reyna að verja sig fyrir dómsstólum.

Hvernig væri að menn líti til nýlegra réttarhalda í Noregi yfir manni sem framdi óskiljanleg ódæði . Þau eru á engan hátt samanburðarhæf við mögulegar sakir fyrir bankarekstur en jafnvel þeim manni var ekki neitað um þau mikilvægu réttindi sem sakborningar ákæruvaldsins hafa. Þar var almenn og aðdáunarverð stilling manna á meðal og rannsókn og réttarhöld látin hafa sinn gang.