Fimmtudagur 15. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 320. tbl. 16. árg.

Á morgun, föstudaginn 16. nóvember mun dr. Daniel Mitchell, skattasérfræðingur bandarísku hugveitunnar Cato Institute, ræða um röksemdirnar gegn stighækkandi sköttum og fyrir flötum sköttum. Fyrirlestur hans verður í Háskólatorgi Háskóla Íslands, í stofu HT-102, kl. 12–13. Nýstofnuð Samtök skattgreiðenda og RNH standa að fyrirlestrinum, en Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda, verður fundarstjóri. 

Mitchell hefur skrifað bók um flatan skatt og skrifar reglulega í blöð og tímarit, þar á meðal Wall Street Journal og New York Times. Hann hefur oft komið til Íslands og skrifað meðal annars um íslensk skattamál.

Sem kunnugt er hefur vinstri stjórnin hér á landi ekki aðeins hækkað alla skatta heldur einnig flækt skattkerfið á allan mögulegan hátt.

Nú þarf lítið forrit til að reikna hinn þrepaskipta tekjuskatt einstaklinga sem áður mátti gera með einfaldri margföldun og frádrætti persónuafsláttar. Heimili þar sem samanlagða tekjur hjóna eru yfir 950 þúsundum greiða misjafnan skatt eftir því hvort annar eða báðir makar afla þessara tekna. Fjármagnstekjuskattur er ekki lengur flatur 10% heldur hafa menn „fríðindi“ upp að vissu marki en skatturinn sjálfur er auðvitað orðinn 20%.