Vefþjóðviljinn 321. tbl. 16. árg.
Það er rétt athugað hjá Kristrúnu Heimisdóttur, sem Morgunblaðið hefur eftir í dag, að það er „áberandi þversögn falin í því hjá forsætisráðherra að biðja um lögtæknilega úttekt en nefna úttektina engu að síður degi síðar lögfræðilegan gæðastimpil.“
Hér á Kristrún við það að stjórnvöld fengu starfshóp lögfræðinga til að fara tæknilegum höndum um tillögu „stjórnlagaráðs“ að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Starfshópurinn átti ekki að leggja mat á gæði tillagnanna eða bera saman hvort þær eða gildandi stjórnarskrá væru betri. Hópnum var sagt að vinna með tillögurnar sjálfar og fara yfir hluti eins og innbyrðis samræmi og slíkt.
Og jafnvel með slíkt ör-umboð gerir hópurinn 75 breytingartillögur við tillögurnar.
Þegar það liggur fyrir, láta spekingur eins og Jóhanna Sigurðardóttir og hófstilltur þingmaður eins og Valgerður Bjarnadóttir, eins og tillögurnar hafi fengið „gæðastimpil“.
Það er svona svipað og ef tóbaksfyrirtæki fengi hóp lungnalækna að skila álitsgerð um að það hvenær dagsins sé hollast að reykja sígarettur. Hópurinn mætti hins vegar ekki bera saman hollustu þess að reykja og þess að reykja ekki. Læknarnir klóri sér í kollinum en segi svo að það sé best í upphafi vinnudags því lungun hreinsist kannski við erfiði dagsins. Talsmenn tóbaksfyrirtækja mæti svo í fréttaviðtöl, að rifna úr stolti, og segi: Nú er það staðfest, sígarettur eru hollar. Sérstaklega á morgnana.