Miðvikudagur 14. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 319. tbl. 16. árg.

Einn dag í viku fylgir Morgunblaðinu sérstakt bílablað. Í bílablaðinu í gær var grein undir fyrirsögninni „Bílar björguðu Bandaríkjaforseta“, og segir þar:

Hafi Barack Obama einhvern tíma efast um þá ákvörðun sína að koma bandarískum bíliðnaði til hjálpar í byrjun kreppunnar hafa slíkar efasemdir eflaust horfið með öllu úr kolli hans á kosningavökunni í Ohio sl. þriðjudag. er sigur hans í forsetakosningunum lá fyrir – rétt eins og legið hafði í loftinu um hríð. Þar kom í ljós að forsetinn hafði meðal annars tryggt sér sigur í iðnaðarhéruðunum í norðurhluta Ohioríkis sem eiga mikið undir bílaframleiðslu. Á korti yfir kjördeildir myndaðist óslitinn blár borði á þessu svæði. Frá jeppasmiðju Chrysler í Toledo í Ohio í vestri til Chevrolet Cruze-smiðju General Motors í Lordstown í austri.

En það er ekki eins og fylgi Obama þarna hafi verið óvæntur happdrættisvinningur fyrir hann. Obama og demókratar hafa verið í fjögurra ára samfelldri kosningabaráttu í Ohio. Menn hafa í nokkur ár talið sig geta reiknað út að Ohio væri algert lykilríki fyrir repúblikana að vinna, enda hefur enginn repúblikani sigrað í forsetakosningum án þess að sigra í Ohio. Og þess vegna hefur Obama verið þar í samfelldri baráttu í fjögur ár. 

Aðstöðumunur forseta í endurkjöri og áskoranda hans er gríðarlegur. Forsetinn og flokkur hans hafa í fjögur ár vitað að forsetinn verður frambjóðandi flokksins. Hinn flokkurinn velur ekki forsetaefnið fyrr en fimm mánuðum fyrir kjördag. Demókratar voru beinlínis byrjaðir að birta neikvæðar auglýsingar um Mitt Romney í Ohio áður en forkosningum repúblikana var lokið. Til sumra ríkja Bandaríkjanna hefur Obama ekki einu sinni komið, en hann fór í tæplega fimmtíu heimsóknir sem forseti til Ohio. Neikvæðar auglýsingar demókrata um Romney voru sendar út í ótrúlegu magni í Ohio. 

Það var ekki út í loftið sem Obama lét ríkið hlaupa til og hjálpa iðnaðinum í Ohio. Þó að íslenskir fjölmiðlamenn haldi að Obama hafi verið endurkjörinn af því hann sé svo yndislegur mannvinur þá er heimurinn aðeins annar en þeim sýnist oftast. Obama er einfaldlega afar séður stjórnmálamaður sem nýtir sér alla möguleika til fulls. Og demókratar svífast einskis í neikvæðri baráttu gegn andstæðingunum, þó íslenskir fjölmiðlamenn haldi að það sé einmitt á hinn bóginn. Demókratar séu yfirveguð valmenni sem berjist fyrir lítilmagnann en sitji undir látlausum viðbjóðnum úr Fox News, sem íslenskir fjölmiðlamenn horfa aldrei lengur á en í mínútu, stórhneykslaðir á því hversu lágt menn geta lagst.