Þriðjudagur 13. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 318. tbl. 16. árg.

Í síðustu viku var sagt frá því í fréttum að borgarfulltrúar í Reykjavík hefðu allir sem einn samþykkt tillögu Sóleyjar Tómasdóttur um að borgin efni til viðræðna við ríkið um að „brúa bilið“ milli fæðingarorlofs og leikskóla. Eftir að leikskólar fóru almennt að taka við börnum innan við tveggja ára aldur og fæðingarorlof var lengt í 18 mánuði hefur að sögn gervallrar borgarstjórnar myndast skelfilegt bil sem nú er nauðsynlegt að brúa á kostnað skattgreiðenda. Borgarstjórnin virðist telja það alveg fjarstæðukennt að foreldrar geti séð um börnin án beinnar þátttöku ríkis eða borgar í þessa 0 til 6 mánuði sem þarna eru á milli. Raunar er það ekki þannig því þjónusta dagmæðra er niðurgreidd af borginni og hana nýta margir sér í umræddu bili.

Að þessari ályktun samþykktri tók meirihluti borgarstjórnar til við að hækka gjöld fyrir sorphirðu í borginni því ekki má bjóða þann rekstur út. Þar við bætist að öll heimili verða á næstunni skikkuð til að vera með tvær ruslatunnur þótt ein hafi dugað ágætlega undir allt sorp hingað til. Það verður gert í þágu umhverfisins enda sjá allir að tvær tunnur í stað einnar og tveir sorpbílar í stað eins hlýtur að vera gott fyrir umhverfið.