Mánudagur 12. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 317. tbl. 16. árg.

Um helgina fór fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi. Eftir prófkjörið hafa stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar, einkum í öðrum flokkum, reynt að túlka úrslitin sem mikinn stuðning við sín sjónarmið.

Og hvað er til í því?

Einn frambjóðenda í prófkjörinu lagði áherslu á stuðning sinn við inngöngu Íslands í Evrópusambandið.  

Hvaða frambjóðandi var það? 

Það var nú Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, sem fór ekki dult með það í kosningabaráttunni að hún tilheyrði félagsskapnum Sjálfstæðir Evrópumenn og væri framkvæmdastjóri samtakanna Já Ísland.

Hvernig gekk henni? 

Ja, hún endaði í hópnum „en aðrir minna“. Hún komst með öðrum orðum ekki á blað meðal þeirra sem fengu atkvæðatölu sína birta.

En Ragnheiður Ríkharðsdóttir, hún er nú svo ofboðslegur Evrópusinni, er það ekki? Er það ekki mikill stuðningur við Evrópusambandsumsóknina að hún hlaut annað sæti?

Ónei.  Í kynningu sinni fyrir prófkjörið sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir að Evrópustefna sín væri „að fylgja eftir ályktun síðasta landsfundar varðandi ESB um að þjóðin taki ákvörðun um hvort að halda eigi viðræðunum áfram.“

Stefna Sjálfstæðsflokksins er eins og menn vita að viðræðum verði ekki haldið áfram án þess að slíkt verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ragnheiður Ríkharðsdóttir lýsti yfir stuðningi við stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópusambandsmálum og eftir það hlaut hún annað sætið í prófkjörinu.

En Vilhjálmur Bjarnason, hann vill ekki slíta viðræðunum? Nei hann vill það víst ekki. En dettur einhverjum í hug að kjósendur hafi haft Evrópumál í huga þegar þeir kusu Vilhjálm Bjarnason? Atkvæði greitt Vilhjálmi Bjarnasyni er stuðningsyfirlýsing um allt aðra hluti en Evrópumál. 

Eini frambjóðandinn sem sérstaklega fór fram sem Evrópusambandssinni komst ekki á blað. Það er nú sigur Evrópusambandssinna í þessu prófkjöri.