Helgarsprokið 11. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 316. tbl. 16. árg.

Í sjónvarpsþættinum Silfri Egils var í dag boðið upp á einkaviðtal við mann nokkurn, Richard Stallman að nafni, en hann mun vera mikill talsmaður „frjáls hugbúnaðar“ og andstæðingur höfundarréttinda. 

Svo skemmtilega vill til að sama dag og Ríkissjónvarpið sýndi langt einkaviðtal við Stallman sagði Ríkissjónvarpið frá því í fréttum að til stæði að bjóða fram til þings sérstakt framboð andstæðinga höfundaréttar og var rætt við Birgittu Jónsdóttur af því tilefni. 

Birgitta sagði væntanlegan flokk einkum höfða til ungs fólks. Þeir sem agnúast út í höfundarétt annarra eru fyrst og fremst þeir sem telja sjálfsagt að þeir fái ókeypis að njóta ávaxtar af erfiði annarra. Fróðlegt verður að vita hvort ungir Íslendingar telja slíkt sjálfsagðara en þeir sem eldri eru.

Einn vinstrisinnaðasti vinstrimaður landsins, Úlfar Þormóðsson rithöfundur, varð mjög glaður og ákafur að heyra sjónarmið Stallmans í þættinum. Úlfar er á móti einstaklingsfrelsi en vill veg ríkisins sem mestan. Það er þess vegna skiljanlegt að hann vilji ekki að einstaklingar njóti sköpunargáfu sinnar, heldur verði hún strax að sameign allra, eins og önnur verðmæti.

Í pistli á vefmiðli í eigu vinstrigrænna, Smugunni, spyr Úlfar: 

Sjálfum fannst mér einnig merkilegt að hlusta á það sem Richard Stallman hafði að segja um einkaréttinn í sama Silfri, en Stallman var kynntur til sögunnar sem talsmaður frjáls hugbúnaðar í heiminum. Orð hans staðfestu fyrir mér að sömu hugmynd lýstur einn í dag og annan á morgun þótt að á milli þeirra séu mörg hundruð mílur og án þess að þeir viti hver af öðrum. Það vill svo til að ég hef verið að velta fyrir mér að undanförnu hversu óþarfur, eða réttara sagt, hversu mikill dragbítur einkarétturinn er á frelsið og velferðina. Ég var svo sem ekki kominn mikið lengra í þankanum en að leggja fyrir mig spurningar líkar þessum: Er eitthver glóra í því að einstaklingur eða risafyrirtæki hafi einkarétt á því að framleiða lyf sem bjarga lífi, veiða fisk eða sauma föt í ákveðnu sniði? Er eitthvert vit í því að sá sem fyndi ráð til þess að eyða krabbameini á byrjunarstigi ætti þaðan í frá einkarétt á hugmyndinni? Erum við ekki saman í þessu?

Hugmyndir liggja í loftinu og eru til sameiginlegs búks. Þær verða ekki að einkaeign þó að þeim ljósti niður í einhvern einn því að þær eiga enga leið að manninum nema í gegn um skilningarvit hans. 

Einhverjum finnst það ef til vill öfugmæli að segja að ljósið skíni skærast í myrkrinu. En þannig er það samt. Það er því við hæfi að í vaxandi skammdegi skuli þjóðinni vera bent á nýjar lýðræðisbrautir og voðann af einkarétti. 

Úlfar telur einkaréttinn mikinn dragbít á „frelsið og velferðina“. Það er auðvitað leiðinlegt fyrir Úlfar að þurfa að draga fram lífið í landi og heimshluta sem hefur lengi reynt að verja einkaeignarréttinn, og þá væntanlega með skelfilegum afleiðingum fyrir frelsi og velferð þegnanna. En Úlfari til léttis má vekja athygli hans á því að til eru lönd sem hafa einmitt, eins og hann vill, gert lítið með einkaeignarrétt. Úlfar mun eflaust einn daginn flytja til slíks lands til að njóta til fullnustu þeirra áhrifa sem skertur einkaeignarréttur hefur á verðmætasköpun í landi og lífskjör hins almenna borgara þar. 

Það er ekki út af engu sem landamærayfirvöld eru sífellt að stöðva skip þar sem bláfátækt fólk, frá vestrænum löndum sem virða einkaeignarrétt, felur sig í gámum og skilrúmum, til að smygla sér til þeirra landa þar sem einkaeignarrétturinn fær ekki að skerða frelsi og lífskjör með þeim voða sem Úlfar Þormóðsson og skoðanabræður hans vita.

Á dögunum kom út ný skáldsaga eftir Úlfar Þormóðsson. Vefþjóðviljinn hefur ekki kynnt sér hana ennþá og getur því ekki fullyrt hvort höfundur hennar áskilur sér einhver réttindi. En slíkt verður auðvitað að telja mjög ólíklegt. Líklegra er að Úlfar hafi afsalað sér öllum höfundarétti að bókinni og fyrri bókum sínum og allir megi því skanna þær og birta á vefsíðum sínum, án þess að Úlfari verði greitt fyrir. 

Eitt af því sem Úlfar Þormóðsson veltir fyrir sér er hvort „einhver glóra“ sé í því að einhver geti átt einkarétt á því að framleiða lyf sem geti bjargað lífi. Það er nú það. Þróun nýrra lyfja er með allra dýrustu verkefna sem menn leggja á sig. Slík vinna kostar yfirleitt ótrúlegar fjárupphæðir og margra ára vinnu afar margra. Heill her vísindamanna og annars starfsfólks starir árum saman í smásjár, gerir ótal tilraunir og prófar sig áfram fram og til baka. Stundum fá menn ekkert út úr erfiðinu annað en vonbrigði yfir glötuðum árum og fjármunum. En af og til kemur út úr öllu þessi erfiði lyf sem reynst getur betur en eitthvert þeirra sem fyrir eru. En þá koma Úlfarar Þormóðssynir og Pírataframbjóðendur allra landa og telja „höfundarétt“ alveg skelfilegan dragbít. 

Sama á við á svo ótalmörgum sviðum. Rithöfundur puðar í eitt ár yfir nýrri bók. Kvikmyndagerðarmenn eyða ótrúlegum upphæðum í að gera nýja mynd sem gleður fjölda fólks. En svo koma Úlfararnir og Píratarnir og vilja fá þetta frítt. Þeir sem standa í að reyna að verja höfundarétt sitja undir svívirðingum og jafnvel hótunum.