Mánudagur 1. október 2012

Vefþjóðviljinn 275. tbl. 16. árg.

Mynd úr Viðskiptablaðinu sem sýnir vel misjafnan áhuga í Efstaleitinu á svonefndum jafnréttisbrotum Jóhönnu og Ögmundar.
Mynd úr Viðskiptablaðinu sem sýnir vel misjafnan áhuga í Efstaleitinu á svonefndum jafnréttisbrotum Jóhönnu og Ögmundar.

Það leynir sér sjaldan hvort menn eiga vinum eða fjandmönnum að mæta innan Ríkisútvarpsins. Þar á bæ virðast menn sjaldan hika við að haga bæði fréttaflutningi og dagskrárgerð eftir eigin skoðunum.

Opinber nefnd, kærunefnd jafnréttismála, hefur frekar nýlega komist að þeirri niðurstöðu að tveir ráðherrar, Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson, hafi brotið gegn jafnréttislögum. Myndu nú flestir telja þessi tíðindi markverðari í tilfelli Jóhönnu enda er hún forsætisráðherra og lét sérstaklega færa jafnréttismálin undir sig í það ráðuneyti, en lét frá sér efnahagsmálin í staðinn.

En ekki þykir öllum þetta. Í úttekt Viðskiptablaðsins kemur fram að fréttastofa Ríkisútvarpsins minntist 28 sinnum á mál Ögmundar Jónassonar en aðeins átta sinnum kom mál forsætisráðherrans Jóhönnu við sögu í fréttum. Og mál Jóhönnu rataði aldrei í sjónvarp ríkisins en mál Ögmundar komst þangað sjö sinnum. Til samanburðar má nefna að samkvæmt samantektinni sagði Morgunblaðið nákvæmlega jafn oft frá máli Jóhönnu og máli Ögmundar.

Og hvernig var með það þegar Jóhanna Sigurðardóttir rak formann stjórnarnefndar um málefni fatlaðra úr starfi, fyrir engar sakir? Honum voru dæmdar bætur fyrir það offors Jóhönnu.

Eftir að þögn Ríkissjónvarpsins um málið hafði verið harðlega gagnrýnd lét Kastljósið svo lítið að taka stutt viðtal við Jóhönnu um málið, viðtalið var tekið á gangi þinghússins og málið aldrei nefnt síðan. En ef í hlut hefði átt ráðherra sem ekki nýtur velvildar í Efstaleiti hefði vart þurft að efast um áhugann og fréttaflutninginn. Þá hefðu ekki allir verið búnir að gleyma málinu þegar jafnréttislagamáli Jóhönnu kom upp.