Þriðjudagur 2. október 2012

Vefþjóðviljinn 276. tbl. 16. árg.

Sigriður Á. Andersen lögmaður og varaþingmaður ritaði grein í Morgunblaðið í síðustu viku að því tilefni að ríkisvaldið hefur í hyggju að gefa út nýjan 10 þúsund króna seðil. Á mynd sem fylgdi greininni mátti sjá hvernig útseld vinna fyrir slíka fjárhæð skiptist og milli þess sem vinnur fyrir henni og hinna 63 sem blanda sér í málið. Er skemmst frá því að segja að hinir fá allt að þrjár krónur af hverjum fjórum sem hinn vinnandi maður setti upp fyrir vinnu sína. Ráðstöfunartekjur mannsins aukast aðeins um 2.549 krónur við það að selja þjónustu fyrir 10 þúsund krónur. Nánar má lesa um málið á vef Sigríðar.

Sigríður velti því jafnframt fyrir sér hvað knýi á um útgáfu á svo stórum seðli því almennt hafi fólk ekki tugþúsundir króna í veskjum sínum sem kalli á þessa nýjung.

Það kann þó að vera að ég hafi misskilið tilganginn með þessari nýju seðlaútgáfu. Hún er líklega hugsuð til þess að það gangi sem greiðlegast að taka skattana af fólki.