Laugardagur 29. september 2012

Vefþjóðviljinn 273. tbl. 16. árg.

Óvæntur gestur á RÚV. Svona er lífið fullt af tilviljunum. <i>Mynd: hordurtorfa.com</i>
Óvæntur gestur á RÚV. Svona er lífið fullt af tilviljunum. <i>Mynd: hordurtorfa.com</i>

Það verður að hrósa Ríkisútvarpinu fyrir það sem það gerir vel. Sumt gerir það betur en allir aðrir.

Þannig fékk það í vikunni Hörð Torfason trúbadúr í langt og mikið viðtal í útvarpsþætti þeirra frjálslyndu manna, Ævars Kjartanssonar og Jóns Ólafssonar, „Alltaf að rífast“. Það var aldeilis kominn tími til að fá langt og gott einkaviðtal við Hörð, því hann hafði ekki verið í neinu slíku alveg síðan síðasta sunnudag, þegar hann var einn í löngu viðtali hjá Agli Helgasyni í Silfri Egils.

Hörður Torfason er maður sem skiljanlegt er að slegist sé um að fá í viðtöl. Þegar tilkynnt var að Geir Haarde væri með krabbamein og myndi hætta stjórnmálastarfi, sagði Hörður opinberlega að það væri aðeins „pólitísk reykbomba“ sem „við“ myndum ekki falla fyrir. Eftir bankahrunið stefndi Hörður Torfason hópi manna að seðlabankanum og krafðist þess að bankastjóranir þrír yrðu reknir. Kom fram í ræðu Harðar að hann vissi mætavel hvað einn bankastjórinn hét, hafði hugmynd um skírnarnafn annars en um þann þriðja vissi hann ekkert. En bæði Hörður sjálfur og fréttamenn Ríkisútvarpsins sem fylgdu honum eftir töldu að Hörður væri að öðru leyti mikil heimild um seðlabankamál. Síðast komst Hörður í fréttir þegar hann mótmælti því að Samtökin 78 heiðruðu Mbl-sjónvarpið fyrir þáttaraðir þess um samkynhneigt fólk og um svokallað transfólk. Kom í ljós að það var andúð Harðar á öðrum ritstjóra blaðsins sem varð til þess að hann vildi ekki að samtökin heiðruðu Mbl-sjónvarpið fyrir þættina.

Þannig að það er mjög skiljanlegt að þáttastjórnendur Ríkisútvarpsins sækist eftir því að fá Hörð í löng einkaviðtöl. Þetta er greinilega yfirvegaður maður sem getur lagt margt mikilvægt til umræðunnar.