Föstudagur 28. september 2012

Vefþjóðviljinn 272. tbl. 16. árg. 

Engilbert Ingvarsson á Tirðilmýri segir svo frá í ritinu Undir snjáfjöllum, þættir um búsetu og mannlíf á Snæfjallaströnd:

Mér eru minnisstæð hjónin á Ármúla Hannes Gíslason og Guðrún Sigurðardóttir, sem ég átti eftir að kynnast betur síðar. Einnig tvö hjú á bænum Guðjón söðli og Jóka. Guðrún á Ármúla var alltaf jafnróleg og yfirveguð í tali. Hannes var áður fyrr formaður á eigin útveg. Hann var hamhleypa til vinnu og þótti oft skemmtilega fljótfær og þegar svo bar við lifa sögur um það. Ein sagan um Hannes er frá því að þegar sláturfé frá Skjaldfönn og Ármúla var rekið inn yfir Selá gekk illa að koma fénu yfir ána, enda fór það á sund. Hannes gekk rösklega fram, tók dilka og kastaði út í ána. Jóka var að hjálpa til við reksturinn, lágvaxin og bogin í baki með mórauðan skakka. Allt í einu hrópar Hannes „A-ha þarna fór Jóka“. Hafði hann þá þrifið kerlinguna í misgripum.