Miðvikudagur 26. september 2012

Vefþjóðviljinn 270. tbl. 16. árg.

Guðmundur Andri fullyrðir í blaðagrein að Sjálfstæðisflokkurinn muni banna fóstureyðingar og hjónaband samkynhneigðra komist flokkurinn í ríkisstjórn.
Guðmundur Andri fullyrðir í blaðagrein að Sjálfstæðisflokkurinn muni banna fóstureyðingar og hjónaband samkynhneigðra komist flokkurinn í ríkisstjórn.

Hversu ómerkilegir og ómarktækir geta menn verið?

Í fyrradag birti Guðmundur Andri Thorsson enn eina fullyrðingagreinina í Fréttablaðinu, sem enn er lagt inn á þúsundir heimila á hverjum degi, án þess að nokkur á heimilinu hafi beðið um það. 

Að þessu sinni ætlaði hann greinilega að gera sér mat úr því að könnun sýnir að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna myndi kjósa Barack Obama gegn Mitt Romney, ef Íslendingar mættu kjósa í bandarísku forsetakosningunum. Guðmundur Andri nefndi að Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður hefði fylgst sem gestur með flokksþingi Repúbliknaflokksins og Björn Bjarnason hefði fjallað um þingið á vefsíðu sinni og hrósað þar einhverjum vinnubrögðum. Og hvaða ályktanir þykist ómerkilegur áróðursmaður svo geta dregið af þessu? Jú, Repúblikanaflokkurinn bandaríski er samkvæmt Guðmundi Andra Thorssyni „móðurflokkur“ Sjálfstæðisflokksins. Og Guðmundur Andri fullyrðir hikstalaust:

Komist Sjálfstæðisflokkurinn til valda á ný, einn eða með fulltingi fylgdarflokks síns, Framsóknarflokksins, er þess að vænta að fóstureyðingar verði bannaðar, undantekningarlaust, enda hafa talsmenn hins bandaríska móðurflokks bent á að líkami kvenna sé þannig af Guði gerður að nauðganir leiði ekki til þungunar. Víst má telja að bönnuð verði hjónabönd samkynhneigðra og Gay Pride-gangan kannski ekki bönnuð – þegar flokkurinn nær borginni aftur – en færð upp í Norðlingaholt, á þriðjudegi milli klukkan níu og tíu á morgni, einhvern tímann í miðjum febrúar. Í skólum landsins, þessum fáu sem ekki eru einkaskólar handa ríku börnunum, verður skylt að kenna ekki bara tilgátu Darwins um þróun lífsins heldur líka sköpunarsögu Biblíunnar eins og Guð lét skrá hana.

Og er þá fátt eitt talið.

Hvað á það að þýða að bjóða fólki upp á þetta? Trúir maðurinn þessu? Og ef hann trúir þessu ekki sjálfur, hvað segir það þá um álit hans á lesendum sínum að hann beri þetta á borð fyrir þá?