Þriðjudagur 25. september 2012

Vefþjóðviljinn 269. tbl. 16. árg.

Sem frægt er sagði Mitt Romney stuðningsmönnum sínum á dögunum að sá hluti landa hans sem greiddi enga skatta en þæði bætur myndi aldrei kjósa hann. Þetta minnti Vefþjóðviljann á málflutning Stefáns Ólafssonar prófessors. Stefán er mjög gjarn á að skipta fólki upp í tekjuhópa og lætur svo eins og fólkið sé almennt bundið á þessum básum um aldur og ævi og eigi hvorki möguleika né geri sér vonir um að flytjast upp um hóp. Þó hljóta prófessorar og frambjóðendur að hafa dæmi um það fyrir augunum nær daglega hvernig menn flakka milli tekjuhópa. Það er ekki gott ef tölur í hagskýrslum yfirskyggja lífsreynsluna sjálfa.

Vefþjóðviljinn kætist þó jafnan þegar félagsfræðiprófessorinn sendir frá sér ný gögn um skatta og tekjur. Stefán stendur yfirleitt í þeirri trú að gögnin sýni nauðsyn aukinnar ríkisforsjár, miðstýringar og sértækra aðgerða í þágu ákveðinna „hópa“.

Þannig var það þegar hann sýndi fram á aukna skattbyrði á árunum fyrir 2006. Hann taldi þá þróun til marks um gandreið frjálshyggjunnar. En hann áttaði sig ekki á því að gögnin sem hann dró fram sýndu einmitt að lækka hefði þurft skatthlutföll af miklu meiri krafti en gert var í góðærinu svonefnda. Tekjuskattur einstaklinga náði aldrei að fara niður í það sem hann var þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp fyrir aldarfjórðungi og skattleysismörkin héldu hvorki í við laun né almennt verðlag. 

Skattalækkanir eru eina raunhæfa leiðin til að hemja útgjaldagleði stjórnmálamanna. Það þarf að draga úr fóðurgjöfinni til að hemja vöxtinn. 

Grafið hér að neðan er nýlegt framlag félagshyggjuprófessorsins. Það sýnir skattbyrði nokkurra „hópa“ árið 2010. Stefán telur þetta til marks um að ekki megi taka upp flatan 20% tekjuskatt því þá hækki tekjulægsti „hópurinn“ úr -3% skattbyrði í 20% skatt.

En tekjulægsti „hópurinn“ 2010 er ekki sá sami og 2009 eða 2011. Fólk flyst á milli „hópanna“ hans Stefáns, upp og niður. Menn ljúka námi og finna sé launað starf, skipta um starf, kynnast ríkri ekkju. Nú eða taka saman við óreglumann sem sogar alla sem á vegi hans verða niður í lægsta tekjuhópinn hans Stefáns en við það eitt flytjast einhverjir aðrir upp úr þeim hópi! Slík eru þessi vísindi. 

Hins vegar getur það auðvitað dregið úr áhuga manna á því að auka tekjur sínar ef skattar hækka við það skarpt og bætur lækka. Það er til lítils að auka tekjur sínar og komast upp úr lægsta hópnum í millitekjuhópinn ef það hverfur allt í hærri skatta.

Það er óþarfti að flækja skattkerfið til að rétta hlut þeirra sem lakast standa. Önnur kerfi eiga mega sjá um það.

Það hlýtur svo að vera ákveðið markmið út af fyrir sig að allir séu sæmilega jafnir fyrir svo afgerandi lögum sem skattalöggjöfin er. Skattar eru ein stærsta íhlutun ríkisins í líf manna. Ef þess er nokkur kostur á ekki að undanþiggja neinn frá þeim reglum.