Laugardagur 15. september 2012

Vefþjóðviljinn 259. tbl. 16. árg.

Það var tímabært að koma því út á bók að þrælahald sé frelsi og frelsisunnendur minni helst á Stalín.
Það var tímabært að koma því út á bók að þrælahald sé frelsi og frelsisunnendur minni helst á Stalín.

Á mánudaginn sagði Vefþjóðviljinn frá viðtali Egils Helgasonar við „þróunarhagfræðinginn“ Ha-Joon Chang. Nýlega kom út bók á íslensku eftir Chang sem Vefþjóðviljinn vitnaði einnig í en þar segir Chang „sláandi samsvörun milli aðferða Stalíns“ og stefnunnar sem talsmenn frjáls markaðar mæla fyrir. Auk þess hafi þrælahald í raun verið frjáls markaður.

Minna má það ekki vera þegar frjáls markaður er tekinn til bæna.

En þótt Chang telji Stalín hafa verið slíkt illmenni að jafnvel megi jafna honum við talsmenn frjáls markaðar vill hann leyfa einræðisherranum að njóta sannmælis fyrir það sem vel var gert.

Það er kaldhæðnislegt að ef Stalín hefði ekki tekið upp stjórnunaraðferðir Preobrazhenskís hefði Sovétríkjunum ekki tekist svona fljótt að koma sér upp undirstöðum í iðnaði og án þeirra hefði landið ekki haft burði til að hrinda innrás nasista á austurvígstöðvunum í heimsstyrjöldinni seinni. Hefðu nasistar ekki beðið ósigur á austurvígstöðvunum hefði Vestur-Evrópa ekki getað bugað nasista. Það er gráglettnislegt en Vestur-evrópubúar eiga núverandi frelsi sitt að þakka hagfræðingi sem stóð yst til vinstri og hét Preobrazhenskí.

Röksemdafærsla af þessu tagi er vafalaust ekki á færi nema háskólaprófessors með próf í þróunarhagfræði. 

Væntanlega hefðu þær milljónir Rússa sem létu lífið vegna stjórnunaraðferða Stalíns bara flækst fyrir í vörninni gegn innrásarher Hitlers. Og án iðnaðarsósíalismans og útrýmingar stórbænda hefði auðvitað aldrei sprottið upp annar iðnaður í Rússlandi sem komið hefði að gagni við hergagnaframleiðslu. 

Sama má segja um alla helstu yfirmenn sovéska hersins sem Stalín hafði látið taka af lífi. Hershöfðingjar, ofurstar, liðþjálfar og aðrar þúsundir og aftur þúsundir af þjálfuðum mönnum, sem höfðu reynslu af herstjórn og margir einnig bardagareynslu af vígvelli, höfðu allir lent í hreinsunum. Það hefur eflaust hjálpað að vera laus við þetta lið, þegar Þjóðverjarnir komu. Skipalestirnar með vopn og vistir frá Bandaríkjunum til Rússlands á stríðsárunum eru svo sjálfsagt einhver sögufölsun hins frjálsa markaðar því varla hafa Bandaríkin verið burðugt iðnríki án þess að drepa fyrst stórbændur og svelta milljónir manna í hel.

Þetta sjá allir enda „gráglettnislegt“ mál allt saman.